Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið SidekickHealth, sem meðal annars er fjármagnað af fjárfestingarfélaginu Novator, samdi við þýska lyfjafyrirtækið Bayer. SidekickHealth mun bjóða sjúklingum sem glíma við útslagæðasjúkdóm (e. Paripheral Artery Disease) stafræna heilsumeðferð sem notuð er meðfram hefðbundinni lyfjagjöf. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrirtækin munu í fyrstu bjóða meðferðina í Svíþjóð og stefnt er að því að samstarfið munu einnig ná til annarra markaða í Evrópu.

Umbreyting á lyfjaiðnaði

„Bayer er í stafni umbreytingar á lyfjaiðnaðinum. Við hjá SidekickHealth erum í skýjunum með að hafa hafið samstarf við Bayern um að veita þeim sem þjást af lífsstílsjúkdómum framsæknar meðferðir,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri SidekickHealth.

Hann segir að kjarninn í meðferðum SidekickHealth séu breyttir lifnaðarhættir. „Okkar meðferðir margfalda virkni lyfja,“ segir hann í tilkynningu.

SidekickHealth hefur þróað svokallaða stafræna heilbrigðismeðferð, þar sem tækni er beitt til að bæta meðferð fólks með langvinna sjúkdóma svo sem sykursýki, bólgusjúkdóma og hjarta- og æðasjúkdóma.

SidekickHealth stofnað af læknum

Það sem af er ári hefur SidekickHealth náð samningum fyrir átta milljónir evra, þar á meðal við Pfizer. Félagið var stofnað árið 2013 af tveimur læknum, þeim Tryggva og Sæmundi Oddssyni. Tryggvi hefur við Fréttablaðið að tæknin grundvallist á hugmyndinni um fyrirbyggjandi læknisfræði.

Hlaut annað sætið

Fréttablaðið sagði frá því í nóvember að SidekickHealth hafi hlotið annað sæti í keppni EIT Digital fyrir að vera á meðal bestu heilbrigðistæknifyrirtækja í Evrópu.

EIT Digital, sem er á vegum Evrópusambandsins, horfir til fyrirtækja sem geta vaxið hratt og veitti tíu fyrirtækjum verðlaun í fimm flokkum.