Síðasta verslun Nóatúns, sem staðsett er í Austurveri, verður lokað næstkomandi föstudag en allar vörur verslunarinnar verða á 30 prósent afslætti þar til búðin lokar. Þetta kemur fram í frétt mbl.is um málið.

Morgunblaðið greindi frá því síðastliðinn febrúar að versluninni yrði lokað í sumar en henni yrði í kjölfarið breytt í Krónu verslun. Upprunalega stóð til að Krónan myndi opna í Austurveri í ágúst en því hefur verið frestað fram í október. Krónuverslunin kemur til með að bjóða upp á valdar vörur úr Nóatúni.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í febrúar að þau væru að einbeita sér að rekstri lágvöruverðsverslana. „Á síðustu árum höfum við oft fengið óskir frá íbúum í Háleitishverfi um Krónu í hverfið sitt og nú erum við að svara því kalli.“

Að því er kemur fram á heimasíðu Nóatúns á verslunin sér langa sögu en fyrsta Nóatúns verslunin opnaði 1965 að Nóatúni 17 og opnaði verslunin í Austurveri 25 árum síðar. Nóatún er í dag hluti af Festi hf.

Verslunin hefur staðið í Austurveri í 30 ár.