Hugbúnaðarfyrirtækið Keeps er að þróa hugbúnaðarlausn sem aðstoðar fyrirtæki í ferðaþjónustunni að uppfæra myndirnar sínar á sölusíðum á skemmri tíma heldur en áður og sparar þeim í leiðinni tíma og kostnað.

Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að um sé að ræða síðasta púslið í því að umgjörð markaðsetningar ferðaþjónustunnar sé fullmótuð.

„Nú eru ferðaþjónustuaðilar komnir með kerfi sem stýrir verði og framboði til söluaðila ásamt þrifakerfi, innritunarkerfi og fleiri kerfi sem einfalda ferla og spara tíma. En lausnin okkar er í raun síðasta púslið en jafnframt það mikilvægasta til að sinna markaðssetningu og auka söluna,“ segir Guðrún og bætir við að hugbúnaðurinn geti nýst öllum aðilum ferðaþjónustunnar.

Hún segir að ferðaþjónustuaðilar noti myndefni til að selja herbergi, matinn á veitingastöðum og afþreyingu eins og jöklaferðir og gullna hringinn. Þeir deila þessum myndum inn á helstu sölusíður Booking, Expedia, Viator, GetYourGuide og samfélagsmiðla til dæmis Instagram og Facebook.

„Eins og staðan er í dag þurfa þeir að innskrá sig á hverja og eina síðu og uppfæra myndirnar. Þetta er virkilega tímafrekt og tekur oft um það bil tvo klukkutíma í hvert sinn. Þessir tímafreknu ferlar eru þess valdandi að myndum er oft illa sinnt og þær sjaldan uppfærðar sem hefur áhrif á söluna. Okkar hugbúnaður leysir þetta vandamál og ekki nóg með það, heldur mun ferðaþjónustuaðilinn geta haldið öllum myndunum sínum til haga með skipulögðum hætti á einum og sama staðnum.“

Guðrún segir að hún hafi unnið hjá Expedia sölusíðunni í mörg ár og þá hafi hún fundið fyrir því að þegar kom að því að hlaða inn myndum eða uppfæra þær, hafi allt í rauninni stoppað.

„Ég kom auga á að hægt væri að gera ferlið einfaldara, þægilegra og skilvirkara. Til dæmis stilla það þannig að Norðurljósamyndir séu sýnilegar yfir Norðurljósatímabilið og að græn tún séu sýnileg yfir sumartímann.“Guðrún segir að viðtökurnar hafi farið fram úr hennar björtustu vonum.

„Það er mjög mikill áhugi á þessari lausn. Við erum nú í samstarfi við tvö stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins sem eru ekki að nota þessa lausn í dag en væru til í að nota hana og eru því að þróa hana með okkur.“

Guðrún tekur fram að þau verði með tilbúna lausn í lok nóvember. Sú lausn sé þó ekki fullmótuð en notast verður við hana til að byrja með.

„Varan verður enn í þróun en verður í lok nóvember í söluformi. Við erum á fullu núna að tala við fjárfesta og það er mikill áhugi á þessari lausn. Við erum um þessar mundir að keppast við koma vörunni í loftið. Síðan fer mikil vinna í að gera lausnina eins notendavæna og hægt er. Okkar markmið er að herja á íslenska og norræna markaðinn sem fyrst.“