Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að sú mynd af orkumarkaðinum sem Martin Jackson dró upp á morgunverðarfundi Landsvirkjunar sé ekki lýsandi fyrir stöðuna. Jackson, sem er álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, sagði orkuverðið samkeppnishæft fyrir íslensku álverin.

Nefnir Sigurður nýtt gagnaver Advania í Svíþjóð sem dæmi fyrir versnandi samkeppnisstöðu Íslands. „Advania er fyrirtæki sem hefur fjárfest mikið uppi á Íslandi og byggt hér upp starfsemi. Það kýs samt að fara í næstu fjárfestingu annars staðar,“ segir hann.

Raforkuverðið sé stór hluti af ástæðunni þó að vissulega geti aðrir hlutir spilað inn í, svo sem að í Svíþjóð sé hægt að selja umframvarma. Gagnrýnir Sigurður að Jackson hafi byggt sína ályktun á meðalverði og tölum frá árinu 2018.

„Staðan er ekki sú sama í dag því það hefur verið endursamið við stóra orkukaupendur,“ segir Sigurður. Þetta eigi til dæmis við Elkem á Grundartanga og Norðurál. Þeir sem séu á eldri samningum njóti hagstæðari kjara.

Spurður hverju sé um að kenna segir Sigurður það helst vera nýrri verðstefnu Landsvirkjunar. Orkuverð hafi farið hækkandi í tæpan áratug. Á hinum norðurevrópska markaði, Nordpool, hefur verðið hins vegar lækkað síðan 2018. Þá gagnrýnir Sigurður einnig að í nýrri skýrslu Landsvirkjunar komi fram að samkeppnishæfi sé mikið hérlendis þegar litið sé til minni stórnotenda, sem nota 10 til 20 megavött. Bæði séu notaðar tölur frá 2018 og að ekki sé hægt að taka lítið brot af markaðinum og heimfæra allt upp á það.