Samtök iðnaðarins fagna því að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur í dag. Til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við samdrátt í efnahagslífinu telja samtökin mikilvægt að peningastefnunefndin lækki stýrivexti Seðlabankans enn frekar. Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt 28. ágúst.

„Með lægri vöxtum má meðal annars efla fjárfestingu og nýsköpun, auka kaupmátt heimilanna og draga úr atvinnuleysi,“ segir í tilkynningu.

Verðbólgan er að hjaðna, verðbólguhorfur hafa batnað og verðbólguvæntingar hafa verið að lækka og stefna í 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans. Langtímaverðbólguvæntingar á markaði eru nú rétt við verðbólgumarkmiðið.

Að mati Samtaka iðnaðarins gefur þetta peningastefnunni töluvert svigrúm til að milda þá niðursveiflu sem nú er hafin. „Raunstýrivextir eru mjög háir og draga þarf úr taumhaldi peningastefnunnar miðað við stöðu og horfur í efnahagsmálum,“ segja samtökin.

Peningastefnunefndin hóf vaxtalækkunarferli með lækkun stýrivaxta bankans 22. maí síðastliðinn um 0,5 prósentur. Stýrivextir bankans höfðu þá verið óbreyttir frá því að nefndin ákvað að hækka þá um 0,25 prósentur í byrjun nóvember 2018. Samtals hefur nefndin nú lækkað stýrivexti bankans um 0,75 prósentur á tæplega mánuði.

„Sýnir nefndin með þessu að hún vilji bregðast skjótt við breyttum aðstæðum í efndahagslífinu. Ástæða er til að fagna því,“ segja Samtök iðnaðarins.