Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lýsa yfir vonbrigðum með að nýundirritaður fríverslunarsamningur við Breta hafi ekki falið í sér niðurfellingu tolla á vissa flokka sjávarafurða frá Íslandi.

Afleiðingin verður sú að afurðirnar sem um ræðir verða áfram fluttar óunnar úr landi til vinnslu erlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFS.

„Aukin áhersla og metnaður Íslendinga á vinnslu sjávarafurða, til að auka verðmætasköpun enn frekar, kallaði á endurskoðun á gildandi markaðsaðgangi. Raunin er því miður sú, að háir tollar á einstaka sjávarafurðir hamla því verulega að vinnsla þeirra sé rekstrarlega möguleg hér á landi. Má þar helst nefna lax, karfa og ýmsar flatfiskategundir, en þessar afurðir eru að miklu leyti fluttar óunnar úr landi.

Þessu hefði verið hægt að breyta með betri markaðsaðgangi gagnvart Bretlandi. Í þeim fríverslunarsamningi sem var undirritaður var þetta, einhverra hluta vegna, ekki sótt. Tækifærin voru ekki gripin,“ segir í tilkynningu SFS.

Samtökin segja jafnframt að auka megi virði íslenskra sjávarafurða enn frekar með aukinni vinnslu á Íslandi. Nýji fríverslunarsamningurinn þýði að á því kunni að verða bið um sinn.