Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ásakanir á hendur Samherja alvarlegar og segja það á ábyrgð fyrirtækisins að bregðast við þeim. Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að það hafi ávallt verið afstaða samtakanna að allir félagsmenn skuli fara að lögum og eftir reglum.
„Gildir þá einu hvar viðkomandi starfsemi fer fram, á Íslandi eða í útlöndum.“
Þá segir að það sé ljóst að mál af þessu tagi geti haft áhrif á orðspor íslensks sjávarútvegs og stöðu á alþjóðlegum markaði.
Samtökin segja því brýnt að málið verði rannsakað svo hið rétta komi fram.
„Það er allra hagur, ekki síst þeirra sem bornir eru þungum sökum,“ segir að lokum.
Undir yfirlýsinguna ritar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
Yfirlýsing í heild sinni.
Reykjavík 13. nóvember 2019
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vilja taka fram vegna umræðu um starfsemi Samherja hf. í Afríku, að það hefur ætíð verið afstaða samtakanna að allir félagsmenn skuli fara að lögum og eftir reglum. Gildir þá einu hvar viðkomandi starfsemi fer fram, á Íslandi eða í útlöndum.
Hvað varðar framkomnar ásakanir á hendur Samherja hf., þá eru þær í eðli sínu alvarlegar og það er fyrirtækisins að bregðast við þeim. Ljóst er að mál af þessu tagi getur haft áhrif á orðspor íslensks sjávarútvegs og stöðu á alþjóðlegum markaði. Því er brýnt að málið verði rannsakað og hið rétta komi fram. Það er allra hagur, ekki síst þeirra sem bornir eru þungum sökum.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS