Silicon Valley Bank, sextándi stærsti banki Bandaríkjanna og einn vinsælasti lánabanki tæknigeirans, er hættur störfum. Um er að ræða stærsta hrun banka frá því að bankinn Washington Mutual hrundi í fjármálakreppunni árið 2008.

Stjórnvöld í Kaliforníu létu loka bankanum og settu eignir hans undir stjórn innistæðutryggingasjóðs bandarísku alríkisstjórnarinnar (FDIC). FDIC segir að allir tryggðir innistæðueigendur hjá bankanum fái aftur aðgang að innistæðum sínum í síðasta lagi á mánudaginn og að ótryggðir reikningshafar fái fyrirframgreiðslu frá stofnuninni í næstu viku.

Heildarvirði Silicon Valley Bank undir lok síðasta árs nam um 209 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 29.521 milljörðum íslenskra króna. Bankinn höfðaði sér í lagi til sprotafyrirtækja í tæknigeiranum sem hafa undanfarið liðið fyrir vaxtahækkanir og þverrandi áhættufjármagn. Þetta ástand leiddi til þess að margir viðskiptavinir SVB hófu að draga út innistæður sínar hjá bankanum og undanfarna viku átti bankinn fullt í fangi með að koma til móts við úttektir innistæðnanna.

Flestir fjármálarýnendur telja enn sem komið að hrun SVB sé einskorðað við þennan banka. Flestir aðrir bankar hafi fjölbreyttari starfsemi en SVB, sem var ákaflega háður tæknigeiranum og berskjaldaður fyrir sveiflum þar. Fjárfestirinn Bill Ackman hefur hins vegar líkt falli SVB við hrun Bear Stearns, sem var fyrsti lánabankinn sem hrundi í byrjun alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2007-2008.