Fimm íslenskar lögmannsstofur, ásamt ráðgjafafyrirtækinu Deoloitte, sækjast eftir því að vera innlendur lögfræðiráðgjafi Bankasýslunnar í tengslum við söluferli Íslandsbanka.

Frestur til að lýsa yfir áhuga á ráðgjafarhlutverkinu rann út fyrr í dag en á heimasíðu Ríkiskaupa kemur fram að lögmannsstofurnar BBA Fjeldco, LEX, LOGOS, Nordik lögfræðiþjónusta og DRÁGSS ehf., sem eru í eigu lögmanna sem starfa undir merkjum ADVEL, hafi farið þess á leit að gegna hlutverki lögfræðiráðgjafa.

Bankasýsla ríkisins og Íslandsbanki áætla að ráða sameiginlega annars vegar ráðgjafa með sérþekkingu á íslenskum lögum, meðal annars varðandi almennt útboð og skráningu hluta á verðbréfamarkað, og hins vegar ráðgjafa með sérþekkingu á alþjóðlegum lögum.

Í síðustu viku tilkynnti Bankasýslan að stofnunin hefði ráðið STJ Advisors Group Limited sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna alþjóðlegs frumútboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Sjö aðilar gáfu kost á sér með áhugayfirlýsingum til að verða sjálfstæður fjármálaráðgjafi.

Stefnt er að sölu á 25 til 35 prósenta hlutar í Íslandsbanka í opnu hlutafjárútboði í lok maí og í kjölfarið skráningu bankans í Kauphöllina.