Ólöf Hildur Pálsdóttir, stjórnarmaður í Reginn, býður sig ekki fram á nýjan leik í stjórn fasteignafélagsins. Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, varamaður í stjórn félagsins, og Heiðrún Emilía Jónsdóttir, bjóða sig fram í stjórn Regins.

Hjördís Dröfn býður sig jafnframt fram í varastjórn en hún hefur verið varamaður frá árinu 2013, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hún er sjálfstætt starfandi en var áður framkvæmdastjóri endurskipulagningar eigna hjá Landsbankanum á árunum 2010-2012 og ráðgjafi fjármálaráðherra frá 2009 til 2010.

Heiðrún Emilía er sjálfstætt starfandi lögmaður og situr í stjórn Íslandsbanka og Icelandair Group.

Aðrir frambjóðendur sitja nú þegar í stjórn Regins. Um er að ræða Tómas Kristjánsson formann, Albert Þór Jónsson varaformann, Bryndísi Hrafnkelsdóttur og Guðrúnu Tinnu Ólafsdóttur.

Í framboði til varastjórnar eru Finnur Reyr Stefánsson, viðskiptafélagi Tómasar og áðurnefnd Hjördís Dröfn.

Tómas og Finnur Reyr eiga Siglu sem á 5,5 prósenta hlut í Reginn. Þeir eru einu stjórnarmenn félagsins sem eiga umtalsverðan hlut í Reginn. Albert á 0,008 prósenta hlut í fasteignafélaginu, aðrir eiga ekkert.