Egill Fannar Reynisson er framkvæmdastjóri Ger Innflutnings sem á og rekur Húsgagnahöllina, Betra Bak og Dorma-verslanirnar. Fyrirtækið opnaði nýlega Hästens-verslun í Betra baki sem hefur að sögn Egils Fannars farið vel af stað og nú er undirbúningurinn fyrir jólaverslunina kominn á fullt.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mín helstu áhugamál liggja í sportinu. Ég er alinn upp við mikla íþróttaiðkun á Egilsstöðum þar sem við félagarnir æfðum allt sem hægt var að æfa í íþróttahúsinu. Við náðum nokkuð góðum árangri í fótbolta og handbolta þrátt fyrir að vera ekki stórt bæjarfélag. En ég stunda golf, skíði og veiði og annað rólegra í dag. En mér finnst líka gaman að ferðalögum, heilsu og útivist þar sem maður nær að vera með fjölskyldunni og eða vinum. Einnig er ég alveg ruglaður Liverpool-maður.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég byrja daginn á Wim Hof öndunaræfingum áður en ég hendi mér ofan í kaldan pott og hlusta á krakkana hlæja að mér. Þetta gefur mér aukna orku og hugarró fyrir átök dagsins. Eftir það er svo kaffibollinn tekinn, krökkunum komið af stað í skólann og 3-4 sinnum í viku mæti ég í ræktina áður en vinnudagurinn hefst.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Why We Sleep eftir Matthew Walker. Klárlega ein af mikilvægustu bókum seinni tíma að mínu mati. Lít öðrum augum á svo margt eftir lestur þessarar bókar. Góður nætursvefn skiptir öllu. Ég set svefninn orðið í fyrsta sæti og reyni að ná 8 tíma góðum nætursvefni að öllu jöfnu. Það er ekki auðvelt en með aga og smá skipulagi er ég að verða betri í þessum efnum. Fórna morgunæfingu til að mynda ef mig skortir svefn. Magnað að upplifa hvað gæðasvefn hefur mikil áhrif á líkama og sál.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin undanfarin misseri?

Við vorum að opna nýja og glæsilega Hästens-verslun í Betra baki sem hefur farið fram úr mínum björtustu vonum og farið frábærlega af stað. Einnig höfum verið að fara vel yfir rekstrarumhverfi fyrirtækja okkar og gert nokkrar krefjandi breytingar. Við erum með um 80 manns í vinnu og ég lít á það sem mikið ábyrgðarhlutverk. Með slíkan mannauð eru mér flestir vegir færir því með þessu frábæra fólki er allt hægt og nú erum við á kafi í undirbúningi jólaverslunar.

Hvaða áskoranir og tækifæri eru fram undan í rekstrinum?

Áskoranirnar eru margar en halda okkur jafnframt á tánum. Við erum í mikilli samkeppni og það hefur reynt almennt á allan rekstur undanfarin ár. Verslun er einnig að færast mikið á vefinn og fylgja því miklar áskoranir sem og tækifæri. Ég hef alltaf litið svo á að við eigum engan viðskiptavin, það er viðskiptavinurinn sem ákveður í hvert skipti hvar hann verslar. Því þurfum við ávallt að vanda okkur með þjónustu, verð og upplifun. Koma viðskiptavinum okkar á óvart og helst að fara fram úr væntingum þeirra. Ef það tekst þá fáum við viðskipti. Þetta hljómar ekki flókið en er afar vandasamt og í raun okkar daglega tækifæri.

Sérðu fram á að rekstrarumhverfið taki breytingum á næstu árum?

Já, vissulega, við lifum á tímum þar sem maður upplifir margar breytingar í veldisáhrifum. Hlutir eru fljótir að breytast, sér í lagi hérna á Íslandi þar sem örar sveiflur í efnahag og gjaldeyri geta haft mikil áhrif á skömmum tíma. Það þarf að vera vel undir það búinn. Einnig erum við ábyrg fyrir mörgum stórum verkefnum sem snúa t.d. að loftslagsmálum, kynjarétti og jöfnun í okkar ágæta samfélagi. Við erum að skipta út plasti í verslunum okkar fyrir endurnýtanlega poka sem dæmi og höfum unnið með jafnlaunavottun í þó nokkurn tíma. Við erum stór aðili í innflutningi og erum í verkefnavinnu tengdri jöfnun á kolefnisfótspori. Öll fyrirtæki þurfa að fara að setja sér stefnu í þessum málum og vonandi náum við að skila þessu vel af okkur fyrir komandi kynslóðir.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Jólanna. Það ríkir mikil jólahefð á okkar heimili og börnin okkar fjögur hafa alist upp við það og ekki draga þau úr stemmingunni. Hulda konan mín byrjar svo yfirleitt að spila jólatónlist í byrjun nóvember. Svo á maður líka afmæli á aðfangadag. Auk þess er það afar kærkomið eftir mikla og skemmtilega vinnu við undirbúning jólaverslunar að fá að eiga gæðastundir með sínum nánustu.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Ég sé mig í anda lesa þetta viðtal og hugsa „djöfull varstu alvarlegur“. En vonandi verð ég bara sæll og hraustur að gera það sem mér þykir skemmtilegt eða eins og ég segi gjarnan, það er ekkert víst að það klikki.