Fjöldi skráðra fjárfestinga í frumkvöðlafyrirtækjum jókst á milli ára úr 22 í 29 árið 2019. Fjárhæðin sem lögð var í fyrirtækin dróst lítillega saman á milli ára, eða um fimm prósent, og nam 81 milljón dollara, jafnvirði 10,2 milljarða króna. Í samanburðinum er horft fram hjá fjárfestingum sem eru yfir 50 milljónir dollara til að skekkja ekki samanburðinn. Þetta kemur fram í samantekt North­stack, fréttavefs um nýsköpun.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stofnandi Northstacks, segir að síðastliðið ár hafi verið gott þegar litið er til fjölda fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og fjármagnsins sem þau fengu. Að hans mati eru 29 fjárfestingar á einu ári í frumkvöðlafyrirtækjum dágott. „Það er ein fjárfesting á þrettán daga fresti,“ segir hann.

Að mati Kristins Árna eru 29 fjárfestingar á einu ári í frumkvöðlafyrirtækjum dágott. „Það er ein fjárfesting á þrettán daga fresti,“ segir hann.
Aðsend

Árin 2018 og 2019 ólík

Kristinn Árni segir að það sé þó nokkur munur á hvernig fjárfestingum hafi verið háttað á milli áranna 2018 og 2019. Fjárfestingum í frumkvöðlafyrirtækjum megi skipta á milli fyrirtækja sem séu að stíga sín fyrstu skref og fyrirtækja sem séu að sækja á markað með nýja vöru og stefni á að vaxa hratt.

„Á árinu 2018 var mikið um að fyrirtæki sem væru lengra komin á veg fengju fjármagn. Mörg þeirra höfðu fengið fjármagn árið áður. En í fyrra var meira um að fyrirtæki sem væru komin skemmra á veg fengju fjármagn,“ segir hann og nefnir að það sé af hinu góða því það sé merki um að það sé verið að koma á fót nýjum fyrirtækjum.

Hann segir að á árinu 2017 hafi fjöldi fyrirtækja sem komin voru stutt á veg fengið fjármagn, þau fyrirtæki sem hafi gengið vel hafi fengið viðbótarfjármagn ári síðar og því hafi hann óttast að fjöldi nýrra fyrirtækja færi dvínandi eftir það. „Nú má ímynda sér að á næsta ári fái fleiri fyrirtæki sem eru komin lengra á veg fjármagn,“ segir hann.

Erlendir fjárfestar láta til sín taka

Kristinn Árni segir að erlendir fjárfestar hafi lagt mikið fé í sprotafyrirtæki á undanförnum fimm árum. Í fyrra hafi 72 prósent af fjármagninu haft erlenda tengingu og 48 prósent af fjárfestingunum. Kerecis hafi til að mynda fengið 16 milljóna dollara fjármögnun í fyrra, eða jafnvirði um tveggja milljarða króna, frá fjárfestum víða um heim, lyfjaþróunarfyrirtækið Oculis fékk fjármögnun að jafnvirði 1,9 milljarða króna frá sérhæfðum erlendum fjárfestum og Authenteq fékk fimm milljónir dollara, eða um 630 milljónir króna, meðal annars frá fjárfestingafélagi Tims Draper sem sé þekktur fjárfestir í Kísildalnum.

„Á Ísland erum við ekki með slag­rými til að reka nýsköpunarsjóði sem geta fjárfest fyrir 20 milljónir dollara í einu fyrirtæki. Sjóðirnir hafa yfirleitt úr 40-50 milljónum dollara að spila í heildina. Þeir fjárfesta yfirleitt frá hálfri milljón til tveggja milljóna dollara í hverju fyrirtæki,“ segir hann og nefnir að fyrirtæki sem séu komin lengra á veg þurfi mögulega 10-20 milljónir dollara til að sækja fram. Þá sé jafnvel skynsamlegt að fá í hluthafahópinn fjárfestingasjóði sem séu sérhæfðir í viðkomandi geira.

Viðvörunarbjöllur klingja

Kristinn Árni segir að það sé hættumerki hve lítið fjármagn sé eftir í nýsköpunarsjóðum landsins til að fjárfesta í nýjum sprotum. Rekstraraðilar sjóða þyrftu á næstu tólf til 24 mánuðum að safna fé í nýja sjóði til að halda vegferðinni áfram.

„Það er mikilvægt að verja fé í nýsköpun því sprotafyrirtæki dagsins í dag verða Marel og Össur morgundagsins. Að sama skapi þarf fjármagn að vera til staðar til að styðja við áframhaldandi vegferð sprotans,“ segir hann.

Heimild: Northstack.

Byggja þarf upp heilbrigt fjármögnunarumhverfi

Hann segir mikilvægt að byggja upp heilbrigt fjármögnunarumhverfi sem gagnist sprotafyrirtækjum. Fjármögnun þeirra sé með öðrum hætti en hefðbundinna fyrirtækja sem slái lán í banka fyrir byggingarframkvæmdum eða kaupum á fiskveiðiskipum.

„Þeir sem fjárfesta í sprotum taka mikla áhættu mjög snemma en geta átt von á gríðarlega miklum ábata,“ segir Kristinn Árni og nefnir að fjárfestarnir þurfi því að búa yfir sérhæfðri þekkingu og reynslu. Hvarvetna þar sem nýsköpun sé gróskumikil, eins og til dæmis í Kísildalnum, London, Stokkhólmi eða Tel Avív, kunni fjármögnunarumhverfið að vinna með sprotum á alþjóðavísu.

Mikilvæg hringrás

Að hans sögn skapi heilbrigt fjármögnunarumhverfi hringrás. Lýsandi dæmi um það sé að Frumtak hafi fjárfest í DataMarket sem selt var til bandaríska fyrirtækisins Qlik. Við það hafi stofnandinn, Hjálmar Gíslason, eignast fjármuni sem hann hafi meðal annars nýtt til að stofna nýtt fyrirtæki, Grid, sem sé undir hans stjórn og fjárfest í Avo. „Hefði Frumtak ekki fjárfest í DataMarket hefði Hjálmar mögulega ekki eignast fé til að leggja í Avo,“ segir Kristinn Árni.

Avo er fyrsta íslenska fyrirtækið til að fara í viðskiptahraðalinn Y Combinator sem er sá þekktasti í heimi. Þau tímamót urðu í fyrra. Á meðal fyrirtækja sem hraðallinn hefur komið að eru Airbnb, Dropbox og Reddit.

Stofnendur Avo störfuðu áður hjá QuizUp. Kristinn segir að fyrirtækið sé að leysa vandamál sem starfsmenn QuizUp glímdu við. „QuizUp gekk ekki upp en það leiddi til þess að TeaTime var komið á fót – sem hefur komið með um einn milljarð króna inn í íslenskt hagkerfi – og til stofnunar Avo,“ segir hann.