Setja þarf ramma utan um lífeyrissjóði landsins rétt eins og það er „þéttur rammi“ í kringum stóru bankanna þrjá sem eru kerfislega mikilvægir til að tryggja að þeir hafi ekki neikvæð áhrif á hagkerfið. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi þar sem yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar var kynnt.

„Nákvæmlega hvernig er annað mál en það liggur fyrir að þess þarf,“ sagði hann en hafði orð á því að þess þurfi til að reka hagkerfið með sæmilegum hætti.

Vel heppnað kerfi

Ásgeir undirstrikaði á fundinum að lífeyrissjóðakerfið væri „vel heppnað“ og hafi gengið vel. „Við elskum lífeyrissjóðina,“ sagði hann og vísaði til þess að nú væri fyrsta kynslóðin að fara á eftirlaun sem hafi greitt lengi í sjóðina.

Ásgeir hefur áður sagt í viðtali við Fréttablaðið að Seðlabankinn muni beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða verði tryggt til frambúðar og eyða öllum grunsemdum um skuggastjórn.

„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“ sagði Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.

Ásgeir sagði jafnframt á fundinum að ná yrði betur utan um lánastarfsemi lífeyrissjóða. Eins væri æskilegt að eiga samráð við lífeyrissjóðina út frá greiðslujöfnuði.

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.
Mynd/Aðsend

Fram kom í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar að lágvaxtaumhverfi skapi nýjar áskoranir á fjármálamarkaði. Það eigi sérstaklega við um lífeyrissjóðina sem séu ráðandi þátttakendur á innlendum markaði.

Aukin áhættusækni

Ásgeir benti á að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða, sem sé 3,5 prósent raunávöxtun, hafi verið mörkuð þegar áhættulausir vextir hérlendis voru mun hærri. Áhættulausir vextir hafi lækkað á undanförnum tveimur áratugum. Það leiði til þess að lífeyrissjóðir fjárfesti með áhættusamari hætti til að geta staðið við skuldbindingar sínar. „Það er deginum ljósara.“

Hann sagði að það væri ekki að öllu leyti slæmt enda ekki heppilegt að lífeyrissjóðir eigi einungis ríkisskuldabréf. „Þá værum við komin í gegnum streymiskerfi,“ sagði seðlabankastjóri en nefndi að sama skapi að það megi hafa áhyggjur af aukinni áhættutöku lífeyrisjóða.

Gunnar Jakobsson,varaseðlabankastjóra vakti athygli á því á undinum að ef lífeyrissjóðir færðu sig meira í átt að áhættusamari eignum væri framboðið hérlendis ekki endilega nóg.

Að hans mati væri ekki heppilegt að lífeyrissjóðir breyttust í lánastofnanir án þess að hafa réttu umgjörðina eins og áhættustýringu innanhúss og þekkingu á því hvernig eigi að vinna úr lánum ef í harðbakkann slái. Óheppilegt væri ef lífeyrissjóðir færu í bankastarfsemi án þess að vera undir sömu kröfu og bankar.