Seth Klarman, stofnandi vogunarsjóðsins Baupost Group, segir að Seðlabanki Bandaríkjanna og örvunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi sannfært fjárfesta um að áhætta „hafi einfaldlega horfið“ og því geti markaðurinn ekki sinnt hlutverki sínu að verðleggja eignir. Þetta kemur fram í bréfi til sjóðsfélaga og greinir Financial Times greinir frá því.

Klarman er mikilsvirtur virðisfjárfestir og hefur meðal annars fjárfest í Bakkavör Group.

Hann gagnrýnir Seðlabanka Bandaríkjanna fyrir að lækka vexti og dæla fjármagni í fjármálakerfið eftir að COVID-19 heimsfaraldurinn blossaði upp.

Klarman segir að aðgerðir seðlabankans hafi gert það að verkum að erfitt sé að rýna í heilbrigði bandaríska hagkerfisins. „Þegar svo mörgum örvunaraðgerðum hefur verið ýtt úr vör er það að reyna að átta sig á hvort hagkerfið sé í kreppu eins og að reyna að athuga hvort þú sért með hita eftir að þú tókst stóran skammt af hitastillandi,“ segir hann. „En eins og með froska í vatni, sem er hægt og rólega verið að hita þar til það sýður, er verið að skilyrða fjárfesta á þá vegu að þeir átta sig ekki á hættunni.“

Bandarísk hlutabréf hafa hækkað um meira en 75 prósent frá lágpunkti í mars. Álag á fyrirtækjaskuldabréf – mælikvarði á hve mikið lántakar þurfa að greiða miðað við ríkisskuldabréf – hefur lækkað og er nú hið sama og áður en COVID-19 lamaði heimshagkerfið.

Ávöxtun Baugpost Group var minni á árinu 2020 en sem nam hækkun hlutabréfavísitalna.

Klarman segir að aðgerðir seðlabankans hafi aukið á ófjöfnuð og telur að hagsveiflan sé K-laga. „Auðævi þeirra sem eru á toppnum hafa aukist á meðan hagur þeirra sem eru á botninum fer niður brekku sem er án enda.“

Hann tekur Teslu sem dæmi. Rafmagnsbílaframleiðandinn sé „naumast arðbært“ en engu að síður hafi gengi þess á hlutabréfamarkaði stórhækkað „að því er virðist án ástæðu“.

Lágir vextir hafa gert það að verkum að vænt sjóðstreymi fyrirtækja er mun verðmætara en þegar vextir voru hærri. Klarman segir að margir fjárfestar hafi nýtt það til þess að réttlæta virðismat á fyrirtækjum sem séu mun hærri en þau hafi verið sögulega.

Aðgerðir seðlabankans, hafa að mati Klarmans, skapað aðstæður þar sem hlutabréf fari sífellt hækkandi án þess að því sé veitt athygli að gengið geti lækkað. Með þeim hætti eigi markaðurinn erfitt með að verðmeta eignir með góðu móti.

Aðgerðir seðlabankans hafa stutt við hagkerfið og bjargað fyrirtækjum á fallandi fæti. Klarman segir að aðgerðirnar hafi vakið upp tvær hættulegar hugmyndir: að halli ríkissjóðs skipti ekki máli og að hversu miklar sem skuldirnar séu þá getum við auðveldlega og án áhættu aukið við þær.