Setberg bókaútgáfa, sem verið hefur í eigu sömu fjölskyldunnar frá árinu 1950, mun skipta um eigendur 1. mars. Ásdís Arnbjörnsdóttir, dóttir stofnandans, Arnbjörns heitins Kristinssonar, hefur samið um að selja útgáfuna til Alexiu sem er í eigu Katrínar Amni Friðriksdóttur og Ágústs Sindra Karlssonar. Þau reka saman Iceherbs sem framleiðir vítamín.

Setberg hefur um áratugaskeið sérhæft sig í útgáfu barnabóka. Traust viðskiptasambönd við erlend bókaforlög hafa lengi verið grundvöllur að rekstri félagsins. Bókaútgáfan gaf á árum áður út alls kyns bækur, innlendar og erlendar, ævisögur, spennusögur, ástarsögur, fræðibækur, þýddar bókmenntir og matreiðslubækur. Barnabækur hafa þó ávallt skipað öndvegi í starfsemi Setbergs. Útgefnir titlar Setbergs eru alls um 1.150.

„Við sjáum tækifæri í Setbergi sem er með frábæra sögu. Bækur munu lifa áfram með þjóðinni og sérstaklega hjá yngri kynslóðinni þar sem mikil vitundarvakning er um að halda bókum að börnum sem mótvægi við aukna skjánotkun. Við sjáum líka tækifæri í tæknilegri framþróun í efnissköpun og fræðslu barna ásamt velferð þeirra. Brennandi áhugi á bókmenntum var einnig driffjöður að baki kaupum á forlaginu,“ segir Katrín Amni Friðriksdóttir.

„Ég starfa áfram hjá Setbergi út þetta ár í nánu samstarfi við nýja eigendur og mun tryggja hnökralaus umskipti í faglegri ráðgjöf þar sem við sameinum krafta okkar,“ segir Ásdís Arnbjörnsdóttir. „Útgáfan verður í góðum höndum, þótt ég segi skilið við hana, en ég hef ýmis önnur járn í eldinum sem ég vil sinna betur.“