Almennir fjárfestar sem hafa áhuga á því að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair þurfa að gangast undir mat hjá Íslandsbanka eða Landsbankanum til að sýna fram á að þeir hafi tilhlýðilega þekkingu og reynslu af áskriftarréttindum sem fjármálagerningi. Þetta hefur Fréttablaðið fengið staðfest hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Eftir að hafa skoðað framkvæmd væntanlegs útboðs Icelandair komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að áskriftarréttindi (e. warrants) sem boðin verða með hlutabréfum félagsins í útboðinu, teljist flókinn fjármálagerningur. Áskriftarréttindin, sem bera 15 prósenta vexti á ársgrundvelli, gera þátttakendum í útboðinu kleift að kaupa nýja hluti í framtíðinni á sama gengi og í útboðinu sem verður haldið í næstu viku.

Lagaákvæðin sem stofnunin vísar til fela ekki í sér bann við viðskiptum almennra fjárfesta með flókna fjármálagerninga, heldur leggja þau skyldur á fjármálafyrirtæki sem eru söluaðilar, að meta hvort fjárfesting í útboðinu sé viðeigandi fyrir þá sem taka þátt. Um er að ræða svokallað tilhlýðileikamat.

„Fjármálafyrirtækið metur slíkt með því að afla upplýsinga um þekkingu á og reynslu fjárfesta af áskriftarréttindum,“ segir í svari frá Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Fagfjárfestar þurfa hins vegar ekki að fara í gegnum tilhlýðileikamat.

„Ef fjármálafyrirtækið telur fjárfestinguna ekki viðeigandi fyrir viðkomandi skal það ráða honum frá viðskiptunum. Þrátt fyrir slíka niðurstöðu er sá möguleiki fyrir hendi að almennur fjárfestir taki þátt í útboðinu,“ segir í svarinu.

Ef fjármálafyrirtækið telur fjárfestinguna ekki viðeigandi fyrir viðkomandi skal það ráða honum frá viðskiptunum.

Í útboðslýsingu Icelandair fyrir hlutafjárútboðið kemur fram að sérstakur spurningalisti sé notaður við tilhlýðileikamatið. Bankarnir þurfa að meta hvert tilfelli fyrir sig með handvirkum hætti.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst verður þetta fyrsta almenna hlutafjárútboðið hér á landi þar sem mögulegir þátttakendur þurfa að sýna fram á þekkingu sína og reynslu af verðbréfaviðskiptum.

„Við erum bjartsýn á að þetta muni ekki koma í veg fyrir þátttöku almennings og starfsmanna, enda um tiltölulega einföld viðskipti að ræða sem að flestir munu hafa skilning á, þó að lögin skilgreini þau sem flókinn fjármálagerning,“ segir í svari Icelandair við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Félagið segist stefna að því að hafa dreift eignarhald og vill því ekki takmarka útboðið við einungis fagfjárfesta. Þrátt fyrir að áskriftarréttindin teljist flókinn fjármálagerningur, séu þau í eðli sínu sambærileg við kauprétti sem að margir muni þekkja og hafa grunnskilning á.

„Það hefði því verið ósanngjarnt gagnvart almenningi að útiloka þátttöku þeirra í útboði byggt á fjármálagerningi sem fylgir nýjum hlutum sem bera enga kvöð eða skuldbindingu til frekari fjárútláta í kjölfar útboðs.“

Hluthafafundur Icelandair samþykkti í fyrradag tillögu um útboð sem verður haldið á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku. Gert er ráð fyrir að selja nýja hluti á genginu 1 króna á hlut fyrir alls 20 milljarða. Komi til umframeftirspurnar, mun stjórn hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða, þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna.

Svar Icelandair:

Félagið stefnir að því að hafa dreifða eignaraðild og vill því ekki takmarka útboðið við einungis fagfjárfesta. Þrátt fyrir að áskriftarréttindin teljist flókinn fjármálagerningur, eru þau í eðli sínu sambærileg við kauprétti (sem oft er fjallað um í fjölmiðlum) sem að margir munu, að okkar mati, þekkja og hafa grunnskilning á. Kaupréttur eða valréttur er í eðli sínu tiltölulega einfaldur gerningur í þessu tilviki, það liggur fyrir hvað fjárfestir má kaupa marga hluti, á hvaða verði og á hvaða tíma; engin skuldbinding um kaup eða nýtingu er innifalin í réttinum.

Það er því einfalt og aðgengilegt fyrir almennan fjárfesti að kynna sér verð á markaði og byggt á því taka ákvörðun um hvort hann nýtir kaupréttinn. Ef verð á markaði er lægra en viðmiðunarverð kaupréttar, þá getur almennur fjárfestir séð að kaupin eru honum síður hagstæð. Því er svo vitanlega öfugt farið ef verð á markaði er hærra en viðmiðunarverð kaupréttar. Það hefði því verið ósanngjarnt gagnvart almenningi að útiloka þátttöku þeirra í útboði byggt á fjármálagerningi sem fylgir nýjum hlutum sem bera enga kvöð eða skuldbindingu til frekari fjárútláta í kjölfar útboðs.

Umsjónaraðilar útboðs munu því framkvæma tilhlýðileikamat við hver viðskipti almennra fjárfesta og meta hæfi þeirra til þátttöku. Ef niðurstaða matsins er sú að viðkomandi hafi hvorki þá þekkingu né reynslu sem mælst er til mun honum vera birt viðvörun og ráðið frá því að eiga viðskiptin. Viðskiptavininum er þá í sjálfsvald sett hvort hann fer að ráðum ráðgjafa og hættir við viðskiptin, eða hvort hann ákveður að eiga viðskiptin þrátt fyrir niðurstöðu tilhlýðileikamatsins.

Við erum bjartsýn á að þetta muni ekki koma í veg fyrir þátttöku almennings og starfsmanna, enda um tiltölulega einföld viðskipti að ræða sem að flestir munu hafa skilning á, þó að lögin skilgreini þau sem flókinn fjármálagerning.