Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að hækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans fóru því úr 5,75 prósentum í 6. Í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að verðbólga hefði aukist lítillega á ný í október og mælst 9,4 prósent.

Nefndin gerir ráð fyrir að verðbólga haldist óbreytt til ársloka en taki svo smám saman að hjaðna. Verði um 4,5 prósent á síðasta ársfjórðungi 2023.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir að ákvörðun Seðlabankans hafi komið sér á óvart.

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá óttaðist maður að þetta yrði raunin, þótt maður vonaðist auðvitað eftir óbreyttum vöxtum vegna efnahagsástandsins. Þannig að já, mér brá heldur betur í brún við þessa 25 punkta hækkun sem blasti við manni í gær.“

En stóra málið snýr auðvitað að yfirstandandi kjaraviðræðum.

Elísa segir að þótt vissulega sé ákvörðunin sérkennileg þá sýni því flestir skilning að Seðlabankinn sé í klemmu. Verðbólga sé ekki bara há heldur sé hún á breiðari grunni en áður. Þá hafi verðbólguvæntingar hækkað.

„En stóra málið snýr auðvitað að yfirstandandi kjaraviðræðum. Þeim hefur þegar verið vísað til ríkissáttasemjara. Þannig að í þessu ástandi, með alla þessa spennu á vinnumarkaði og háa verðbólgu, þá hefði maður haldið að hægt væri að anda ofan í kviðinn og halda vöxtum óbreyttum,“ segir Elísa.

Hún bætir við að rannsóknir sýni að áhrif ákvarðana peningastefnunefndar komi ekki að fullu fram fyrr en að 12 til 18 mánuðum liðnum. Áhrif fyrri ákvarðana eigi því enn eftir að koma í ljós.

Einmitt þess vegna hefði verið skiljanlegt að bíða og sjá á þessum tímapunkti.

Enda hafa greiningardeildir bankanna talið líklegast að Seðlabankinn myndi halda að sér höndum í gær. Þar hafi sérfræðingar litið svo á að boltanum hefði verið kastað yfir til verkalýðshreyfingarinnar við síðustu vaxtaákvörðun.

„Þá var varla hægt að skilja seðlabankastjóra öðruvísi en svo að bankinn væri búinn að skila sínu. Háir stýrivextir væru farnir að hafa áhrif og nú væri komið að aðilum vinnumarkaðarins."

Seðlabankinn á fyrst og fremst að vera framsýnn. Hann á ekki að vera flotholt sem sveiflast með hverri öldu.

Elísa segir að Seðlabankastjóri hafi kastað boltanum svolítið þangað.

"En nú er eins og Seðlabankinn sé að hrifsa boltann til sín aftur. Ég sé ekki neinar stórar breytingar eða sveiflur sem rökstyðja þessa u-beygju. Seðlabankinn á fyrst og fremst að vera framsýnn. Hann á ekki að vera flotholt sem sveiflast með hverri öldu. Hann á að vera akkeri,“ segir Elísa.

Hún segist óttast að ákvörðun Seðlabankans frá í gær geri lítið annað en hella olíu á eldinn í yfirstandandi kjaraviðræðum.