Ferðamálaráðuneytið hefur til skoðunar að lagfæra nýleg lög um ábyrgðartryggingar ferðaskrifstofa þannig að tryggingafélög, bæði innlend og erlend, sjái hag sinn í að bjóða íslenskum ferðaskrifstofum upp á slíkar tryggingar. Þannig geti iðgjöld komið í stað mikillar fjárbindingar af hálfu fyrirtækjaeigenda.

„Ráðuneytið skilur vandamálið og er með það til skoðunar. Við erum að bíða eftir að sjá hvað kemur út úr því,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við Fréttablaðið.

Eins og greint var frá í Markaðinum í gær hafa margar ferðaskrifstofur horft upp á verulega hækkun á tryggingum sem þeim er skylt að útvega eftir gildistöku laganna. Samkvæmt svari frá Ferðamálastofu nam heildarfjárhæð trygginga ferðaskrifstofa um sjö milljörðum króna. Áður en lögin tóku gildi stóð heildarfjárhæðin í 4,3 milljörðum króna og hefur hún því hækkað um tæpa þrjá milljarða króna.

Margir eigendur smærri ferðaskrifstofa eiga ekki annarra kosta völ en að fá bankaábyrgð hjá viðskiptabanka gegn þóknun og veði til að verða sér úti um tryggingarnar sem geta hlaupið á tugum milljóna króna.

Jóhannes segir að sænskt tryggingafélag hafi byrjað að bjóða íslenskum ferðaskrifstofum upp á tryggingar fyrir um einu og hálfu ári síðan. Fljótlega hafi komið í ljós að íslensku lögin, sem byggja á Evróputilskipun, hafi verið orðuð með öðrum hætti en sömu lög í nágrannaríkjum. Sænska félagið hafi í kjölfarið dregið sig út af markaðinum og ólíklegt sé að annað tryggingafélag komi inn á markaðinn á meðan lögin eru frábrugðin þeim sem gilda í nágrannaríkjum.

„Vandamálið er að séríslensk útgáfa af reglugerðinni hefur hamlað því að hér verði virkur markaður fyrir tryggingar af þessu tagi. Nærtækasta lausnin er að kippa því í liðinn þannig að iðgjöld taki við af fjárbindingu,“ segir Jóhannes.