Sérfræðingar sem starfa á einkamarkaði eru að flytja sig yfir til hins opinbera. Sú þróun á sér ekki stað í nágrannalöndunum. Þetta sagði Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga á málþingi á vegum félagsins um innhýsingu opinberra aðila sem haldið var ásamt deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi hjá Verkfærðingafélagi Íslands. Greint var frá fundinum á vef Samtaka iðnaðarins.

Reynir fullyrti að hið opinbera greiddi hærri laun en verkfræðistofur um þessar mundir og sagði að verkfræðistörf væru nú mun dýrari innan opinberra aðila en hjá verkfræðistofunum. Hann spurði auk þess á fundinum hvort aukin innhýsing verkefna væri stefna hins opinbera á Íslandi.

Í erindinu velti hann upp hvar væri heppilegast að hafa sérfræðinga landsins. „Við erum örþjóð og ættum því enn frekar en aðrar þjóðir að huga að því hvar við staðsetjum sérfræðingana okkar. Á almenna markaðnum eru sérfræðingarnir okkar aðgengilegir öllum,“ að því fram kemur í endursögn á vef Samtaka iðnaðarins.

Reynir velti því upp hvort núverandi fyrirkomulag innkaupa stuðli að innvistun verkefna því innkaupin útheimti mikla handavinnu hjá bjóðendum og kaupanda og tefji verkefnin. Hann kallaði eftir að hið opinbera marki sér stefnu um að úthýsa sem allra mest, það væri þjóðhagslega hagkvæmt.

Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá Eflu.
Mynd/Samtök iðnaðarins

Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá Eflu, sagði á málþinginu frá niðurstöðum meistararitgerðar sinnar um innhýsingu opinberra aðila á verkfræðiþjónustu. Það hafi sýnt sig að hið opinbera væri að sinna verkefnum á sviði verkfræði sem markaðurinn geti sinnt. Rekstrarafkoma verkfræðistofa hér á landi hafi dalað frá 2016 til 2019.

Helstu niðurstöður ritgerðarinnar væru að það skorti þekkingu á lögum um opinber innkaup varðandi hvernig sé hægt að klæðskerasníða innkaup að þörfum verkkaupa. Einnig að viðmiðunarfjárhæðir laganna séu of lágar. Oft og tíðum setji þó opinberir aðilar sér strangari viðmið en lögin heimila. Hann nefndi einnig að minni aðilar væru oft í erfiðari stöðu við að koma sínum málum í góðan farveg hvað innkaupin varðar og því sé hvati hjá þeim til að innhýsa.

Ólafur Ágúst nefnir að Ríkiskaup hafi áður verið með rammasamning fyrir minni opinbera aðila sem ekki höfðu tök á að reka eigin samninga en sá samningur hafi ekki verið í gildi í nokkurn tíma. Það geti ýtt undir innhýsingu.