Kanadíska sendiráðið gekk í lok síðasta mánaðar frá kaupum á einbýlishúsi við Fjólugötu 1 í Þingholtunum í miðborg Reykjavíkur sem áður var í eigu Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Samkvæmt kaupsamningi nam kaupverðið 265 milljónum króna.

Umrætt hús, sem var fyrst sett á sölu árið 2016, er 473 fermetrar að stærð en það er á tveimur hæðum og er undir því kjallari. Það er staðsett neðst í Þingholtunum, gegnt Hallargarðinum, með útsýni yfir Reykjavíkurtjörn.

Húsið á Fjólugötu 1 var teiknað af Sigurði Guðmundssyni arkitekt og byggt árið 1926 en endurnýjað árið 2002. Fasteignamat þess er liðlega 174 milljónir króna. Engar veðskuldir hvíldu á húseigninni, eftir því sem fram kemur í kaupsamningnum.

Kanadíska sendiráðið er til húsa við Túngötu en ekki liggur fyrir hvort húseignin við Fjólugötu verði nýtt sem sendiráðsbústaður.