Sendiráð Bandaríkjanna hér á landi hefur fest kaup á einbýlishúsi við Sólvallagötu 14, sem hefur verið í eigu Andra Más Ingólfssonar, fyrrverandi aðaleigenda Primera Air og Heimsferða, og Valgerðar Franklínsdóttur, eiginkonu hans, með því að virkja kauprétt að húsinu fyrir samtals 450 milljónir króna. Húsið, sem er um 540 fermetrar að stærð og með sjö svefnherbergi, hefur verið til sölu frá því haustið 2019.

Áformað er að húsið verði nýtt sem sendiherrabústaður en sendiráð Bandaríkjanna er í nýjum húsakynnum við Engjateig.

Gert var samkomulag um kauprétt sendiráðsins að húsinu við Sólvallagötu 14 í júní í fyrra, sem það greiddi 150 þúsundir dala fyrir, jafnvirði um 20 milljóna króna, sem var síðan nýttur í lok febrúar á þessu ári. Áætlað er að húsið, sem hefur allt verið endurnýjað að utan og innan á síðustu árum og er fasteignamat þess rúmlega 224 milljónir, verði afhent 1. maí næstkomandi. Í húsinu, sem var byggt árið 1928 og er á þremur hæðum, er einnig meðal annars að finna sérútbúinn vínkjallara.

Fyrst var greint frá því á Smartlandinu á mbl.is í október í fyrra að sendiráð Bandaríkjanna væri að kaupa eignina.

Andri Már, sem stofnaði flugfélagið Primera Air, missti fyrirtækið frá sér þegar það var úrskurðað gjaldþrota í október 2018 og árið eftir yfirtók Arion banki rekstur ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Í árslok 2019 var tilkynnt um það að Andri væri búinn að koma á nýrri ferðaskrifstofu undir nafninu Aventura Holidays.

Fréttin var uppfærð kl. 08:04.