Ferðamálastofa hefur hafist handa við að senda út tilkynningar til þeirra sem fullnægja skilyrðum endurgreiðslu vegna rekstrarstöðvunar Gaman ferða en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Ferðamálastofu frá fyrsta október síðastliðnum.

Fréttablaðið greindi frá því síðastliðinn apríl að ferðaskrifstofan Gaman ferðir höfðu hætt starfsemi í kjölfar gjaldþrots WOW Air. Að sögn eins eiganda gamanferða höfðu starfsmenn fyrirtækisins reynt allt til þess að koma í veg fyrir að starfsemi yrði hætt en það tókst ekki.

Rúmlega eitt þúsund kröfuhafar

Í frétt Ferðamálastofu er tekið fram að senda þurfi sérstaklega á hvern og einn og því geti tekið nokkurn tíma að koma tilkynningum um endurgreiðslu til kröfuhafa en um rúmlega eitt þúsund kröfuhafa er að ræða.

Tilkynningarnar verða einungis sendar rafrænt og er fólk beðið að halda símtölum í lágmarki til að seinka ekki ferlinu enn frekar en Ferðamálastofa þakkar fólki fyrir biðlundina í þessu máli.