Sena hefur náð samkomulagi um kaup á Concept Events. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Senu.

Fram kemur að fyrirækin muni því sameinast og að núverandi eigendur Concept Events muni bætast í hlutahafa- og stjórnendahóp Senu.

Bæði fyrirtæki einbeita sér að því að skipuleggja viðburði. Þar mætti nefna ráðstefnur, hvataferðir, fyrirtækjaviðburði, tónleika og uppistand.

„Concept Events hefur gert frábæra hluti á þessum markaði og það er spennandi að sameina kraftanna og gera enn betur fyrir þann fjölda viðskiptavina sem nýtt hafa sér þjónustu fyrirtækjanna. Við hlökkum til að taka næstu skref og leysa úr læðingi þá krafta sem nú búa í fyrirtækinu,“ er haft eftir Jóni Diðrik Jónssyni hjá Senu.

„Ráðstefnu-, viðburða- og hvataferðarmarkaðurinn fer sífellt stækkandi. Við horfum til framtíðarinnar með Senu með eftirvæntingu og sjáum fram á spennandi tíma,“ segja Dagmar og Sandra Ýr, sem við sameininguna ganga til liðs við stjórnendateymi Senu.