Japanskir kaupendur áls munu þurfa að greiða 185 Bandaríkjadala álag yfir LME-álverðinu á næsta ársfjórðungi, sem er hæsta álag sem samist hefur um í sex ár.

Mikil eftirspurn í nánast öllum heimshlutum, samfara því að heimshagkerfið nær vopnum sínum eftir heimsfaraldurinn, hefur gjörbreytt stöðunni á álmörkuðum á undanförnum mánuðum og hagur framleiðenda vænkast mjög. Bloomberg greinir frá.

Japan er stærsti einstaki innflytjandi áls meðal landa í Asíu. Venjan þar í landi er að stórnotendur áls semja um verð til þriggja mánaða í senn, en þar er jafnan miðað við afslátt eða álag á meðaltal dagslokaverðs í LME-kauphöllinni í London.

Fyrir um það bil einu ári síðan greiddu japönsk fyrirtæki um 60 Bandaríkjadali yfir LME-verðinu og hefur álagið því meira en tvöfaldast á einu ári.

Talið er að verðmyndun áls í Japan slái tóninn fyrir allan Asíumarkað. Miklar kostnaðarhækkanir á ýmis konar iðnaðarframleiðslu í Asíu sé því á sjóndeildarhringnum.