Auglýst hefur verið eftir nýjum eigendum fyrir Frú Laugu en fyrirtækið tilkynnti um þetta á Facebook í gær. Í auglýsingunni kemur fram að um sé að ræða „skemmtilegt tækifæri fyrir matgæðinga, samheldin hjón eða vini til að eignast sitt eigið atvinnutækifæri við verslunarrekstur.“
„Við erum sem sagt að auglýsa fyrirtækið til sölu“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Frú Laugu, í samtali við Fréttablaðið en um er að ræða áherslubreytingar hjá eigendum. Auk Elíasar sér Björg Bergsveinsdóttir um rekstur og er hún eigandi fyrirtækisins.

Opnaði sumarið 2009
Vísir greindi frá því árið 2017 að hjónin Eggert Skúlason og Guðný Önnudóttir hafi tekið við rekstri bændamarkaðarins við Laugalæk og kaffihúss Frú Laugu í Listasafni Reykjavíkur en fyrirtækið var stofnað af Arnari Bjarnasyni og Rakel Halldórsdóttur.
Bændamarkaður Frú Laugu opnaði sumarið 2009 við Laugalæk en árið 2016 var kaffihús Frú Laugu einnig opnað í Listasafni Reykjavíkur. Þá var verslun Frú Laugu einnig rekin við Óðinsgötu á tímabili, meðal annars í kjallara þar sem borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, bjó með fjölskyldu sinni.
Í versluninni má finna ýmsar árstíðabundnar vörur fyrir sælkera og geta viðskiptavinirnir séð hvaðan vörurnar koma að hverju sinni.
Leita að einhverjum til að hjálpa fyrirtækinu að vaxa
Að sögn Elíasar hafa strax komið viðbrögð við auglýsingunni. „Það liggur fyrir að við verðum upptekin í öðru þannig við erum að leita að einhverjum til að taka slaginn og hjálpa fyrirtækinu að vaxa,“ segir Elías en Frú Lauga mun áfram starfa sem bændamarkaður undir stjórn nýrra eigenda.
Aðspurður hvenær núverandi eigendur hyggjast segja skilið við Frú Laugu segir hann það ekki liggja fyrir. „Það er ekkert ákveðið í þessu, það fer bara eftir því hvernig samtölin þróast,“ segir Elías að lokum.