Aug­lýst hefur verið eftir nýjum eig­endum fyrir Frú Laugu en fyrir­tækið til­kynnti um þetta á Face­book í gær. Í aug­lýsingunni kemur fram að um sé að ræða „skemmti­legt tæki­færi fyrir mat­gæðinga, sam­heldin hjón eða vini til að eignast sitt eigið at­vinnu­tæki­færi við verslunar­rekstur.“

„Við erum sem sagt að aug­lýsa fyrir­tækið til sölu“ segir Elías Guð­munds­son, fram­kvæmdar­stjóri Frú Laugu, í sam­tali við Frétta­blaðið en um er að ræða á­herslu­breytingar hjá eig­endum. Auk Elíasar sér Björg Berg­sveins­dóttir um rekstur og er hún eig­andi fyrir­tækisins.

Hjá Frú Laugu má finna ýmsar árs­tíða­bundnar vörur fyrir sæl­kera og geta við­skipta­vinirnir séð hvaðan vörurnar koma að hverju sinni.
Mynd/Facebook

Opnaði sumarið 2009

Vísir greindi frá því árið 2017 að hjónin Eggert Skúlason og Guðný Önnudóttir hafi tekið við rekstri bændamarkaðarins við Laugalæk og kaffihúss Frú Laugu í Listasafni Reykjavíkur en fyrirtækið var stofnað af Arnari Bjarnasyni og Rakel Halldórsdóttur.

Bændamarkaður Frú Laugu opnaði sumarið 2009 við Laugalæk en árið 2016 var kaffihús Frú Laugu einnig opnað í Listasafni Reykjavíkur. Þá var verslun Frú Laugu einnig rekin við Óðinsgötu á tímabili, meðal annars í kjallara þar sem borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, bjó með fjölskyldu sinni.

Í versluninni má finna ýmsar árs­tíða­bundnar vörur fyrir sæl­kera og geta við­skipta­vinirnir séð hvaðan vörurnar koma að hverju sinni.

Leita að ein­hverjum til að hjálpa fyrir­tækinu að vaxa

Að sögn Elíasar hafa strax komið við­brögð við aug­lýsingunni. „Það liggur fyrir að við verðum upp­tekin í öðru þannig við erum að leita að ein­hverjum til að taka slaginn og hjálpa fyrir­tækinu að vaxa,“ segir Elías en Frú Lauga mun á­fram starfa sem bænda­markaður undir stjórn nýrra eig­enda.

Að­spurður hve­nær nú­verandi eig­endur hyggjast segja skilið við Frú Laugu segir hann það ekki liggja fyrir. „Það er ekkert á­kveðið í þessu, það fer bara eftir því hvernig sam­tölin þróast,“ segir Elías að lokum.