Skráning á hlut í Síldarvinnslunni er fyrst og fremst til þess fallin að svara kalli tímans um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi, segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stærsti hluthafinn í félaginu. Umræða um breiðara og dreifðara eignarhald í sjávarútvegi hafi verið æ meira áberandi: „Menn þurfa ekki alltaf að vera fastir í sama farinu. Sala á hlut í Síldarvinnslunni er því tilraun til að mæta þeirri umræðu sem hefur verið um sjávarútveginn og ná fram betri sátt um greinina,“ segir Þorsteinn.

Þegar mest var voru alls 19 sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað á Íslandi, en í kringum aldamót fór að bera á afskráningum. Ekkert útgerðarfyrirtæki var skráð í kauphöllina frá afskráningu Granda árið 2006 og fram til 2014, þegar sama fyrirtæki var skráð aftur. „Heilt yfir áttu þessi fyrirtæki ekki heima á markaði stærðar sinnar vegna og það var takmarkaður áhugi meðal fjárfesta á að eiga þau. Sjávarútvegur hefur verið og mun verða sveiflukennd grein sem getur dregið úr áhuga fjárfesta. Um og upp úr aldamótum voru síðan að koma fjármálafyrirtæki inn á markaðinn sem margir höfðu meiri áhuga á,“ segir Þorsteinn Már.

Bent hefur verið á að hækkandi verð á veiðiheimildum upp úr aldamótum hafi einnig breikkað bilið milli markaðsvirðis sjávarútvegsfyrirtækja á skráðum markaði og upplausnarvirðis þeirra.

Undir þetta tekur Þorsteinn: „Á þeim tíma var verð á veiðiheimildum of hátt því aðgangur að fjármagni var orðinn of auðveldur. Rekstur útgerðarinnar stóð ekki undir þessum verðum á veiðiheimildum og eigið fé greinarinnar þynntist út. Rekstrarafkoma sjávarútvegsins var á köflum ekkert sérstök á árunum upp úr aldamótum, einkum vegna þess að gengi krónunnar var líka orðið mjög sterkt.“

Stærri og öflugri fyrirtæki

Staðan í dag sé hins vegar önnur, enda séu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi mörg hver öflugri í dag. „Flóra fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi er önnur þannig að samsetningin í greininni hefur breyst. Við höfum stærri félög en það eru einnig fleiri minni fyrirtæki. Svo hefur orðið mikil þróun á ýmsa vegu, sama hvort er litið til veiða, vinnslu eða markaðssetningar sem eykur fjölbreytnina. Í dag eru hér sjávarútvegsfyrirtæki af þeirra stærðargráðu að ég tel áhugavert fyrir fjárfesta að taka þátt. Hvað varðar Síldarvinnsluna sérstaklega þá telja menn í það minnsta rétt að kanna áhuga meðal lífeyrissjóða og annarra fjárfesta á því að taka þátt í þeim rekstri. Það hefur alltaf verið stefnan í rekstri Síldarvinnslunnar að hafa skuldsetninguna lága, einkum vegna þess að sveiflur í uppsjávartegundum eru miklar. Fyrirtækið hefur hins vegar verið að ná betra jafnvægi milli uppsjávar- og bolfisktegunda með yfirtökum að undanförnu. Við teljum þetta því áhugaverðan fjárfestingarkost,“ segir Þorsteinn Már. Við árslok 2019 voru nettóskuldir Síldarvinnslunnar um það bil einn milljarður króna, samanborið við 6,5 milljarða króna hagnað fyrir skatta.

Það liggur ljóst fyrir að Samherji mun selja eitthvað af sínum bréfum en hversu stóran hlut liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti.

Samkvæmt nýjasta birta ársreikningi Síldarvinnslunnar frá árinu 2019 er Samherji stærsti eigandi fyrirtækisins með tæplega 45 prósenta hlut. Næststærsti hluthafinn er eignarhaldsfélagið Kjálkanes með ríflega 34 prósenta hlut. Kjálkanes er í eigu einstaklinga sem einnig eiga útgerðina Gjögur sem er með höfuðstöðvar sínar á Grenivík í Eyjafirði. Þriðji stærsti hluthafinn er svo Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað sem hefur verið veigamikill hluti af í samfélaginu þar fyrir austan í áratugi. Mikill fjöldi smærri aðila er svo á hluthafaskrá Síldarvinnslunnar, sem hafa verið í eigendahópnum frá því að félagið var skráð á markað.

Samherji mun selja

Að sögn Þorsteins hefur ekki verið rætt til hlítar innan hluthafahópsins hverjir munu selja sig niður í væntanlegu útboði. „Sú umræða hefur ekki farið fram að fullu leyti innan fyrirtækisins. Kynningar vegna sölunnar eru að fara af stað núna á næstunni. Landsbankinn stýrir þessu ferli og þeir ætla að upplýsa lífeyrissjóði og aðra um stöðu mála á næstu vikum. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort allir hluthafar selji sig jafnt niður, þar tekur hver og einn hluthafi ákvörðun um það. Hins vegur liggur ljóst fyrir að Samherji mun selja eitthvað af sínum bréfum en hversu stóran hlut liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti. Það er ekki unnið út frá því að hlutafé verði aukið.“

Rætt hefur verið um að verðmæti Síldarvinnslunnar liggi á bilinu 90 til 100 milljarðar króna. Þorsteinn Már vill ekki velta fyrir sér hver hugsanlegur verðmiði á félaginu verður í útboðinu:

„Bankamennirnir sjá um það. Ég velti mér ekki mikið upp úr því hver verðmiðinn er á þeim fyrirtækjum sem ég kem að. Ég hugsa þetta ekki á þennan hátt. Ég hef fyrst og fremst áhuga á því að fyrirtækin fjárfesti í eigin rekstri þannig að skip, vinnslur, tækni og búnaður séu í fremstu röð hverju sinni til þess að geta mætt síbreytilegum kröfum viðskiptavina sinna. Á sama tíma legg ég höfuðáherslu á að fyrirtækin standi við sínar skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum, lánardrottnum og starfsmönnum. Við hjá Samherja fórum í gegnum hrunið 2008, stóðum við allar okkar skuldbindingar upp á krónu og fengum enga afslætti af lánum eða endurreikning á vöxtum.“

Ekki viðbragð við frumvarpi

Í nóvember síðastliðnum kom fram frumvarp frá Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um að skerpt yrði á reglum í fiskveiðilögum um hámarkseignarhald á veiðiheimildum. Í núgildandi lögum miðast hámarkið við 12 prósent af heildaraflamarki. Kaupi sjávarútvegsfyrirtæki hins vegar í annarri útgerð bætist það ekki við aflahlutdeildina, svo fremi eignarhaldið fari ekki yfir 49 prósent. Yrði þetta frumvarp að lögum myndi það hafa afleiðingar fyrir eignarhald Samherja á Síldarvinnslunni.

Þorsteinn Már segir að skráning á hluta Síldarvinnslunnar sé ekki viðbragð við áðurnefndu frumvarpi: „Nei, ekkert sérstaklega. Umræðan um Samherja og stærð fyrirtækisins er oft áberandi. Samherji er hins vegar smáfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða. Það þarf ekki að líta lengra en til Noregs þar sem stærstu fiskeldis- og sjávarútvegsfyrirtækin velta töluvert meira en allur íslenskur sjávarútvegur samanlagt. Samkeppnisaðilar okkar, ekki bara Samherja heldur allra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, eru því afar öflugir. Að undanförnu hafa svo verið sameiningar hjá rússneskum sjávarútvegsfyrirtækjum þannig að þar eru að verða til risavaxin fyrirtæki. Mörg af þessum fyrirtækjum eru miklu eða margfalt stærri en Samherji.

Það eru ekki meira en fjögur til fimm ár í það að þrjú af sex stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, mælt í veltu, verði laxeldisfyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru að mestu leyti í eigu Norðmanna.

Við erum ekki stórir þegar er komið út fyrir landsteinana. Ég tel að það þurfi að horfa á þessa hluti í breiðara samhengi enda er sjávarútvegur alþjóðlegur og markaðirnir eru erlendis. Það væri ekki gott fyrir samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs ef verulegar hömlur eru settar á eignarhald veiðiheimilda umfram það sem er í dag. Síðan geri ég mér ekki alveg grein fyrir hvernig á að reikna þetta. Í allflestum tilfellum eru margir eigendur að stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum. Á þá að reikna eignarhald aflaheimilda niður á hvern og einn hluthafa í útgerðum? En það er sjálfsagt að hafa skoðanir á þessu og hollt að ræða þessi mál. Ef þú lítur bara til Noregs þá er stærsta fyrirtækið í uppsjávarvinnslu þar, Pelagia, stærra en öll uppsjávarfyrirtækin til samans á Íslandi, svo dæmi sé tekið.“

Eldisfyrirtæki verði þau stærstu

Hið norska Pelagia varð til við samruna þriggja norskra sjávarútvegsfyrirtækja árið 2014 en stærstu hluthafar Pelagia eru aðilar sem eru umsvifamiklir í laxeldi, meðal annars hér á landi. „Ef við horfum aðeins fram í tímann þá verða laxeldisfyrirtækin hér heima meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Það eru ekki meira en fjögur til fimm ár í það að þrjú af sex stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, mælt í veltu, verði laxeldisfyrirtæki. Þessi fyrirtæki eru að mestu leyti í eigu Norðmanna. Þetta er auðvelt að sjá með að horfa til þeirra leyfa sem hafa verið veitt, til hvaða fyrirtækja og hvernig verðið á laxi er. Þetta eru bara þær staðreyndir sem liggja fyrir. Ég er ekki að segja að þetta sé slæm þróun en það er vert að hafa þetta í huga þegar sjávarútvegurinn og þær reglur sem um hann gilda eru til umræðu. Það verður eitt stórt fyrirtæki fyrir austan og svo myndi ég nú ekki útiloka að það yrði líka eitt stórt fyrir vestan líka.“

Norðmenn leggja mikla áherslu á að styðja við og byggja upp laxeldi, sem skýrir að hluta hversu áberandi þeir eru á Íslandi í þeim efnum.

„Norðmenn framleiða um það bil 1,3 milljónir tonna núna og ætla að vera komnir í 2,5 milljónir tonna eftir áratug. Verðmætið af laxeldi Norðmanna er því núna að minnsta kosti 20 sinnum meira en af öllum þorski sem veiddur er við Íslandsstrendur. Það sýnir stærðargráðuna á þessu hjá þeim. Þeir eru að framleiða lax af góðum gæðum sem kemur hratt og örugglega á markað. Stjórnvöld leggja mikla áherslu á uppbyggingu laxeldisins og þeir tala um bláa hagkerfið í þeim efnum. Stefna Norðmanna er að vera fremstir í greininni, bæði hvað varðar umfang framleiðslu og þróun þeirra tæknilausna sem snýr að eldinu. Við sjáum hvað þeir eru umfangsmiklir hér á landi.“

Afhendingar- og gæðaöryggi er eitt af því sem fiskeldi hefur fram yfir veiðar á villtum stofnum: „Viðskiptavinir laxeldisfyrirtækjanna vita sem er að í 99 prósentum tilfella fá þeir það sem þeir hafa pantað, á réttum tíma og í réttu magni og af góðum gæðum. Þetta er það sem laxeldið hefur umfram annan sjávarútveg.“

Helguvíkurmál skýrast fljótlega

Greint var frá því fyrir skömmu að Samherji og Norðurál hefðu undirritað viljayfirlýsingu um kaup á lóð og fasteignum álframleiðandans við Helguvík. Hugmyndin er að athuga hvort það sé hægt hefja landeldi á laxi á svæðinu en á undanförnum þremur mánuðum hafa boranir eftir jarðsjó farið fram þar: „Okkur fannst þetta áhugavert svæði. Mikil fjárfesting þegar bundin í svæðinu, til að mynda hafa þegar átt sér stað jarðvegsskipti. Þarna eru húsakynni sem henta vel undir fiskeldi, meðal annars er þegar búið að leggja affall út í sjó.

Þannig að í raun hentar svæðið vel undir starfsemina. Forsendan er hins vegar að sjálfsögðu aðgangur að vatni og jarðsjó. Við höfum verið að bora eftir sjó, en það hefur gengið heldur erfiðlega. Bergið hefur verið harðara en við áttum von á. Það er mjög stutt í að við vitum hvort það er nóg af vatni þarna til að fara af stað með eldi. Þessi eina hola sem við höfum borað þarna til að kanna grunnvatnsstöðuna er um 400 metra djúp og mun líklega kosta um 100 milljónir. Kaupin á þessum eignum Norðuráls eru hins vegar ekki gengin í gegn. Við höfum ákveðinn tíma til að taka ákvörðun um að klára kaupin. Sá tími er ekki liðinn enn þá þar sem öllum rannsóknum er ekki enn þá lokið.“

Við höfum byggt upp mikla þekkingu á landeldi og í dag er Samherji Fiskeldi stærsti aðilinn í heiminum í landeldi á laxi og bleikju.

Athygli vekur að Samherji virðist sem stendur eina fyrirtækið sem leggur áherslu á landeldi, á meðan mest uppbygging og leyfisveitingar er snerta eldi á Íslandi eru í sjókvía­eldi. „Við fórum í sjókvíaeldi upp úr árinu 2000 og gerðum þar tilraunir með að fara út með stórseiði sem vógu um 300 grömm. Það var eldi í Mjóafirði. Við fengum þar marglyttu sem olli miklu tjóni. Það sýndi að Mjóifjörður er sennilega ekki ákjósanlegur fyrir eldi. Síðan var verð á laxi í sögulegum lægðum á þessum tíma, vel undir 20 norskum krónum á kílóið, um það bil þriðjungur af verðinu í dag.

En á þessum sama tíma eignuðumst við líka landeldi sem er enn þá í rekstri og hefur gengið þokkalega. Við höfum byggt upp mikla þekkingu á landeldi og í dag er Samherji Fiskeldi stærsti aðilinn í heiminum í landeldi á laxi og bleikju,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Rússneskur sjávarútvegur í hraðri sókn

Hröð og mikil uppbygging og þróun hefur orðið í rússneskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Stjórnvöld þar í landi hafa lagt áherslu á að byggja upp iðnað og matvælaframleiðslu innanlands til að draga úr innflutningsþörf á undanförnum árum. Eftir að fjöldi þjóða setti viðskiptabann á Rússa í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu komst aukinn hraði í þá þróun. Þrátt fyrir að Ísland hafi um áratugaskeið haft sterka stöðu í veiðum og sölu á þorski, hefur samkeppnin við Rússa aukist hratt:

„Við Íslendingar löndum innan við fjórðungi af öllum þeim Norður-Atlantshafsþorski sem er veiddur. Bæði Norðmenn og Rússar veiða tvöfalt meira en við. Þá þarf að hafa hugfast að Rússar hafa aðgang að gríðarlegu hafsvæði og hafa verið í sókn í sjávarútvegi bæði vestan og austan megin. Mér finnst margir gleyma því hversu miklum framförum Rússar hafa tekið á undanförnum árum, bæði þegar kemur að skipastól og vinnslu. Þeir hafa tekið stórstígum framförum á undanförnum árum og hafa á þeirri vegferð sótt þekkingu til bæði Íslands og Noregs. Samkeppnin við þá er því að aukast mjög mikið.

Þeir hafa líka náttúrulegt forskot að mörgu leyti. Búa til dæmis við betri samgöngur en við inn á meginlandið. Þeir hafa komið sér upp öflugum bolfiskvinnslum á Múrmansk-svæðinu. Þess verður ekki lengi að bíða þar til þeir fara að keppa af alvöru á markaði með ferskan fisk. Samkeppnin er alltaf að aukast, laxeldið er alltaf að stækka og aðrar þjóðir að taka sig mjög á varðandi framleiðslu og gæðamál.

Rússar hafa verið að kaupa góð skip, meðal annars af okkur Íslendingum. Þar má nefna eitt glæsilegasta frystiskip landsins, Brimnesið, ísfiskarann Engey og uppsjávarskipið Kristínu. Þetta voru allt öflug skip í íslenska flotanum sem voru seld fyrr en ætla hefði mátt, vegna þess að það komu það góð tilboð frá Rússunum.“

Hátæknifiskvinnsla á Dalvík er áhættuverkefni upp á átta milljarða

Þorsteinn tekur fram að ágætt sé að útgerðir og fiskvinnslur af hinum ýmsu stærðum og gerðum séu í rekstri á Íslandi: „En eftir sem áður þarf stór og öflug fyrirtæki til að leiða markaðssetningu og samskipti við erlenda viðskiptavini. Það gleymist oft að við þurfum á erlendum neytendum að halda til að koma okkar afurðum í verð. Í okkar helstu viðskiptalöndum hefur orðið mikil samþjöppun á matvörumarkaði og kröfur gagnvart birgjum aukist mikið á undanförnum árum.

Það væri nær að hlúa að þessari atvinnugrein og sjá hvað hún hefur skapað mikið í stað þess að standa í þessu eilífa þrefi um hverjir starfa hjá og eiga íslensku útgerðarfélögin. Af umræðunni mætti oft dæma að það séu þrír til fjórir starfsmenn hjá Samherja í stað mörg hundruð manna sem leggja sig fram á hverjum degi við að fara vel með auðlindina og búa til eins mikil verðmæti og hægt er.

Þar er ekki bara mikil fjárfesting heldur er þarna verið að sýna íslenskum iðnaði mikið traust, enda erum við að gera marga nýja hluti saman. Þetta er stórt áhættuverkefni.

Hjá Samherja leggjum við áherslu á að vinna aflann okkar mjög mikið. Á einum endanum ertu til dæmis með saltfiskvinnslu sem krefst minni mannafla og tækni en er að sjálfsögðu mjög mikilvæg. Á hinum endanum ertu með fyrirtæki eins og Samherja sem leggur áherslu á framleiðslu afurða sem kallar á miklar fjárfestingar í tækni og búnaði og miklu meiri mannafla. Það eru alveg gríðarlega margar vinnustundir á bak við hvert kíló af fiski sem við flytjum út. Nýja vinnslan á Dalvík er gott dæmi í þessum efnum, en heildarfjárfesting vegna hennar verður líklega meira en átta milljarðar. Þar er ekki bara mikil fjárfesting heldur er þarna verið að sýna íslenskum iðnaði mikið traust, enda erum við að gera marga nýja hluti saman. Þetta er stórt áhættuverkefni, bæði vegna þess að þetta er dýrt og mjög tæknilega flókið.

Margar af þessum lausnum sem eru í þessari vinnslu á Dalvík eru nýjar af nálinni og því var ekki hægt að sækja í reynslu annarra. Þetta er allt saman nýtt. Með þessu erum við að reyna að standa framar í samkeppninni með að bjóða okkar viðskiptavinum nýjar lausnir sem hafa ekki sést áður. Kröfurnar í dag eru þannig að stykkið þarf að vera akkúrat 200 grömm, af ákveðinni lengd og þykkt og svo framvegis,“ segir hann.

Eftirlit með Namibíurekstri ekki nægilega gott

Nú er ekki framsalssamningur milli Íslands og Namibíu. Mun Samherji, eða öllu heldur þeir starfsmenn sem fullyrt hefur verið að verði ákærðir þar, taka til varna fyrir dómstólum þar í landi?

„Samherji mun að sjálfsögðu taka til varna í Namibíu sem og annars staðar og verja fyrirtækið og starfsfólkið sem situr ranglega undir ásökunum.“

Eru ásakanir um óeðlilegar greiðslur í Namibíu á rökum reistar? Ef svo er, hafðir þú vitneskju um það sem átti sér stað þar?

„Við teljum að þessar ásakanir séu ekki á rökum reistar og ég hafði ekki vitneskju um neinar óeðlilegar greiðslur ef þær áttu sér stað á annað borð. Hafi greiðslur átt sér stað sem eru ólögmætar þá voru þær á ábyrgð Jóhannesar Stefánssonar sem stýrði og bar ábyrgð á rekstrinum í Namibíu. Þessar ásakanir byggja meira og minna á fullyrðingum Jóhannesar og brotakenndum gögnum sem eiga að styðja þær en gera það ekki í raun. Þegar trúverðugleiki Jóhannesar er metinn þá verður að hafa hugfast að hann var rekinn sumarið 2016 vegna þess að hann hefði engin tök á starfseminni og sýndi af sér óforsvaranlega háttsemi á meðan hann stýrði útgerðinni í Namibíu. Þá hefur verið upplýst að hann hafði áform um að fara á bak við Samherja og hefja rekstur með öðru útgerðarfyrirtæki stuttu áður en honum var sagt upp störfum.“

Hefði verið hægt að gera eitthvað öðruvísi við rekstur útgerðarinnar í Namibíu? Ef svo er, hvað?

„Mistök Samherja felast í því að hafa ekki haft betra eftirlit með rekstrinum í Namibíu og þar af leiðandi betri yfirsýn. Við höfum þegar reynt að draga lærdóm af þessu máli með innleiðingu á sérstöku kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu sem gildir fyrir öll félög innan samstæðu Samherja. Björgólfur Jóhannsson hefur verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðunnar.“