Miðað við væntingar um framtíðar­arðsemi Íslandsbanka þá var 35 prósenta eignarhlutur í bankanum seldur í nýafstöðnu hlutafjárútboði á nánast sama verði og ætla mætti með hliðsjón af markaðsvirði fjölda annarra banka í Evrópu sem eru að skila sambærilegri arðsemi.

Samkvæmt samantekt Markaðarins, sem byggir á gögnum frá Bloom­berg um markaðsverð skráðra evrópskra banka og áætlunum um arðsemi þeirra á árinu 2023, þá var hlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka þannig seldur á aðeins rúmlega tveggja prósenta undirverði þegar bankinn var skráður á markað í liðnum mánuði. Framtíðararðsemi undirliggjandi eiginfjár – bókfært eigið fé að frádregnum óefnislegum eignum – er almennt álitinn stærsti áhrifaþátturinn á markaðsvirði hlutabréfa banka í Evrópu.

Sé hins vegar aðeins horft til norrænna banka má áætla að hluturinn í Íslandsbanka hafi verið seldur á um 6,5 prósenta undirverði.

Ríkissjóður seldi sem kunnugt er 35 prósenta hlut í bankanum á samtals 55,3 milljarða króna en umframeftirspurn í útboðinu reyndist vera níföld. Útboðsgengið var 79 krónur á hlut og var hlutaféð í bankanum því selt á gengi sem jafngildir um 0,87 af undirliggjandi eigin fé í lok fyrsta ársfjórðungs, sem var um 182 milljarðar króna. Það er nokkuð lægra gengi í samanburði við flesta aðra norræna banka, meðal annars Arion banka sem var á sama tíma metinn á um 33 prósent hærra verði, en þeir hins vegar eiga það sammerkt að fjárfestar vænta þar hærri arðsemi en hjá Íslandsbanka.

Stjórnendur bankans hafa gefið út að markmið hans sé að skila arðsemi eiginfjár á bilinu 8 til 10 prósent fyrir árið 2023 og yfir 10 prósentum til lengri tíma. Hagnaður Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi nam 3,6 milljörðum sem jafngilti 7,7 prósenta arðsemi á ársgrundvelli. Bankinn sendi fyrr í vikunni frá sér jákvæða afkomuviðvörun þar sem hann sagði útlit fyrir að hagnaður á öðrum fjórðungi yrði 5,4 milljarðar.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um tæplega 20 prósent þegar bankinn var skráður á markað þriðjudaginn 21. júní síðastliðinn – hækkunin nam um 25 prósentum í lok þeirrar viku – sem er litlu meiri gengishækkun en þegar Arion banki fór á hlutabréfamarkað í júní 2018 en bréf bankans fóru þá upp um 18,4 prósent á fyrsta degi viðskipta. Gengi hlutabréfa Íslandsbanka hefur haldið áfram að hækka, rétt eins og flestra annarra félaga í Kauphöllinni, en við lokun markaða í gær stóð gengið í 106,5 krónum á hlut og hefur því hækkað um liðlega 35 prósent frá skráningu bankans.

Markaðsvirði Íslandsbanka er nú samtals 213 milljarðar og er hlutafé bankans nú verðmetið á genginu um 1,17 miðað við undirliggjandi eigið fé hans í lok fyrsta ársfjórðungs. Hlutafé Íslandsbanka er hins vegar enn metið á nokkru undirverði í samanburði við Arion en gengi bréfa bankans er á sama mælikvarða yfir 1,5 miðað við eigið fé hans. Báðir bankarnir eru í dag metnir á talsvert hærra verði en aðrir evrópskir bankar sem eru að skila sambærilegri arðsemi.

Ríkissjóður hefur skuldbundið sig til að selja ekki nein frekari bréf í bankanum fyrr en í fyrsta lagi að sex mánuðum liðnum. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar ríkisins – 65 prósenta hlutur – er um 139 milljarðar króna. Það er aðeins litlu lægri upphæð en bankinn var metinn á í heild sinni í ríkisreikningi í árslok 2020, eða 148 milljarðar