Á annan tug borðspila hjá Heimkaup fóru í sölu á 25 krónur eftir að starfsmaður gerði mistök þegar það var verið að stimpla inn verð á vefsíðunni.
Sævar Már Þórisson, markaðsstjóri Heimkaupa, segir að um hafi verið að ræða borðspila frá einum birgja en fjölmörg spil fóru í sölu áður en verðinu var breytt.
„Það er náttúrulega mikill hasar hjá okkur og mikið að gera. Við erum stilla upp tilboðsdögum, erum með fimmtíu þúsund vörunúmer og svo kemur ein innsláttarvilla. Það átti að vera 25 prósenta afsláttur en það var óvart sett 25 krónur í lokaverð,“ segir Sævar.
Hann segir að mistökin hafi ekki verið lengi inn á síðunni en það seldist hins vegar fjöldinn allur af spilum af 25 krónur.
„Þetta gerist í æsingnum. Þegar það þarf að slá inn margar tölur á marga staði þá kemur svona fyrir. Við höfðum samband við fólk, útskýrðum mistökin og það tóku þessu allir vel. Við buðum bara smá aukaafslátt og allir sáttir,“ segir Sævar en útilokar ekki að einhverjir hafi verið búnir að fá spilið í hendurnar áður en mistökin uppgötvuðust.
„Það getur vel verið að einhver hafi sloppið og fengið þetta á 25 krónur,“ segir Sævar.
Meðal þeirra borðspila sem seldust á 25 krónur var Útvegsspilið sem kostar 9.000 krónur.
„Þetta var sennilega besti afsláttur ársins,“ segir Sævar og hlær að lokum.
