Á annan tug borð­spila hjá Heim­kaup fóru í sölu á 25 krónur eftir að starfs­maður gerði mis­tök þegar það var verið að stimpla inn verð á vef­síðunni.

Sæ­var Már Þóris­son, markaðs­stjóri Heim­kaupa, segir að um hafi verið að ræða borð­spila frá einum birgja en fjöl­mörg spil fóru í sölu áður en verðinu var breytt.

„Það er náttúru­lega mikill hasar hjá okkur og mikið að gera. Við erum stilla upp til­boðs­dögum, erum með fimm­tíu þúsund vöru­númer og svo kemur ein inn­sláttar­villa. Það átti að vera 25 prósenta af­sláttur en það var ó­vart sett 25 krónur í loka­verð,“ segir Sæ­var.

Hann segir að mis­tökin hafi ekki verið lengi inn á síðunni en það seldist hins vegar fjöldinn allur af spilum af 25 krónur.

„Þetta gerist í æsingnum. Þegar það þarf að slá inn margar tölur á marga staði þá kemur svona fyrir. Við höfðum sam­band við fólk, út­skýrðum mis­tökin og það tóku þessu allir vel. Við buðum bara smá auka­af­slátt og allir sáttir,“ segir Sæ­var en úti­lokar ekki að ein­hverjir hafi verið búnir að fá spilið í hendurnar áður en mis­tökin upp­götvuðust.

„Það getur vel verið að ein­hver hafi sloppið og fengið þetta á 25 krónur,“ segir Sæ­var.

Meðal þeirra borð­spila sem seldust á 25 krónur var Út­vegs­spilið sem kostar 9.000 krónur.

„Þetta var senni­lega besti af­sláttur ársins,“ segir Sæ­var og hlær að lokum.

Útvegsspilið sem kostar 9.000 krónur var eitt af þeim spilum sem seldist á 25 krónur.