Kín­verski net­verslunar­risinn Ali­baba hafði selt fyrir um fjór­tán milljarða dollara á fyrsta klukku­tíma hins svo­kallaða Sing­le‘s day, eða degi ein­hleypra, sem hófst í gær en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Upp­hæðin sam­svarar rúm­lega eitt þúsund og sjö hundruð milljörðum ís­lenskra króna.

Þá hafði einn milljarður dollara selst á fyrstu mínútunni, eða nærri 125 milljarðar ís­lenskra króna, og búist er við að dagurinn slái met síðasta árs en þá seldist fyrir nærri 31 milljarð dollara eða tæp­lega 3850 milljarða ís­lenskra króna.

Dagur ein­hleypra er haldinn ellefta nóvember ár hvert en hann kemur úr smiðju Ali­baba og er ætlað að vera mót­svar við Valentínusar­deginum. Dagur ein­hleypra er nú stærsti net­verslunar­við­burður ársins en í fyrra var salan á deginum meiri en saman­lögð sala á Black Fri­day og Cyber Monday.

Netverslanir um allan heim, þar á meðal á Íslandi, halda nú daginn hátíðlegan og keppast við að bjóða viðskiptavinum afslætti á fjölmörgum vörum.