Kaupréttur á hlutabréfum í Arion banka sem ætlaður var til að mæta umframeftirspurn hefur verið nýttur. Seljendur, sem væntanlega er Kaupþing, munu þar af leiðandi fá um 5,1 milljarð króna greitt til viðbótar við grunnstærð útboðsins, 33,9 milljarða króna vegna skráningar bankans á hlutabréfamarkað á Íslandi og í Stokkhólmi. Arion banki sendi frá sér tilkynningu um söluna. Heildarfjárhæð útboðsins er því um 39 milljarðar króna, líkt og áður hafði verið upplýst um, þar sem framangreind viðbót var hluti af heildarfjölda hluta sem seldir voru fjárfestum í útboðinu.
 
Nýting kaupréttarins hefur í för með sér að 67.875.000 hlutir á genginu 75 krónur, sem var hið sama og í frumútboðinu, verða greiddir til seljenda. Seljendur höfðu heimild til að fjölga hlutum sem til sölu eru um tæplega 67,9 milljónir og upp í 108,6 milljónir hluta. Neðra bilið var því nýtt.

Seldir voru 67.875.000 hlutir þegar kauprétturinn var nýttur á genginu 75 krónur sem var hið sama og í frumútboðinu. Seljendur höfðu heimild til að fjölga hlutum sem til sölu eru um tæplega 67,9 milljónir og upp í 108,6 milljónir hluta. Neðra bilið var því nýtt.

Útboðsgengið 75 krónur á hlut  samsvarar genginu 0,67 af bókfærðu virði eigin fjár bankans. 

Margföld umframeftirspurn var í hlutafjárútboði Arion banka. Mikill áhugi var bæði frá almennum fjárfestum og fagfjárfestum. Hlutabréf í bankanum voru seld til almennra fjárfesta á Íslandi og Svíþjóð sem og fagfjárfestum frá Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu.