Iðnaður Einkahlutafélagið Stakksberg, sem tók við eignum þrotabús United Silicon í Helguvík, seldi vörubirgðir og hráefni úr landi fyrir um 278 milljónir króna á árunum 2018 og 2019, samkvæmt ársreikningum félagsins.

Greint var frá því í gær að alls hefðu um 19 þúsund tonn af kísilmálmi verið flutt út frá Íslandi til Bandaríkjanna á síðasta ári. Forsvarsmaður PCC á Íslandi sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að í heild hefðu um 8 þúsund tonn verið seld frá PCC til Bandaríkjanna frá því að starfsemi hófst að Bakka. Því er einsýnt að afgangurinn sem fór til Bandaríkjanna eru gamlar birgðir frá United Silicon.

Bandarískir kísilmálmsframleiðendur hafa nú óskað eftir því við yfirvöld þar í landi að tollar verði lagðir á íslenskan kísilmálm vegna þess að hann hafi verið seldur á niðursettu verði þar í landi sökum ýmissa ívilnana sem framleiðslan nýtur hér á Íslandi.

Sé litið til útflutningsverðs kísilmálms (FOB) á árinu 2019 var meðalverð um 1.150 dalir fyrir tonnið til bandarískra kaupenda, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Heildarútflutningsverðmæti kísilmálms til Bandaríkjanna nam um 1,6 milljörðum króna á síðasta ári. Útflutningur PCC er meðtalinn í þeirri tölu, en framleiðsla þeirrar verksmiðju er sögð skila málmi í kringum 99 prósent hreinleika.

Gæði framleiðslu United Silicon voru lakari, auk þess sem miklir gangerfiðleikar voru á verksmiðjunni allt fram að gjaldþroti.

Langstærstur hluti innflutnings kísilmálms til Bandaríkjanna á árinu 2019, um 13 þúsund tonn, fellur hins vegar í hreinleikaflokk 55-80 prósent, samkvæmt gögnum frá bandarísku stofnuninni USGS. Var meðalverð kísilmálms af 55-80 prósent hreinleika um 2.200 dollarar fyrir tonnið allt árið 2019.

Því er ljóst að talsverður hluti útflutningsverðmætis birgða United Silicon hefur líkast til lent annars staðar en á bókum Stakksbergs, en ekki hafa fengist upplýsingar um hver var milligönguaðili um útflutninginn til Bandaríkjanna.

Ekki náðist í forsvarsmenn Stakksbergs við vinnslu fréttarinnar.

Fram kemur í ársreikningi Stakksbergs fyrir árið 2019 að áætlað sé að endurræsa verksmiðjuna í Helguvík á fjórða ársfjórðungi 2022. Eftir gjaldþrot lenti fyrirtækið í fangi Arion banka, sem fjármagnaði reksturinn. Alls nemur skuld við bankann um 12,6 milljörðum króna í árslok 2019.

Stakksberg gerði raforkusamning við Landsvirkjun um mitt ár 2018, eftir að Arion banki hafði tekið yfir reksturinn. Hefur Arion banki veitt Landsvirkjun 1,2 milljarða króna bankatryggingu vegna skuldbindingar Stakksbergs um kaup á raforku sem eiga að óbreyttu að hefjast í október á þessu ári.

Í reikningnum kemur fram að Stakksberg hafi átt í viðræðum um breytingar á samningnum við Landsvirkjun, en niðurstaða er sögð munu liggja fyrir á síðari hluta þessa árs