Vignir Steinþór Halldórsson, húsasmíðameistari og stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins, hefur selt hlut sinn í verktakafyrirtækinu MótX, og stofnað nýtt fyrirtæki. Samkvæmt heimildum Markaðarins var Vignir keyptur út af meðeigendum sínum í MótX, þeim Svani Karli Grjetarssyni og Viggó Einari Hilmarssyni. Hann hefur nú stofnað nýtt verktakafyrirtæki, Öxar ehf., ásamt Ævari Rafni Björnssyni lögmanni.

MótX, sem var stofnað árið 2005, hefur verið á meðal umsvifamestu verktakafyrirtækja landsins á undanförnum árum. Á meðal nýlegra verkefna félagsins var uppbygging á sex fjölbýlishúsum við Elliðabraut í Norðlingaholti.

Ársreikningur MótX fyrir árið 2019 sýnir að félagið hafði 1,6 milljarða króna í tekjur og 3,8 milljarða króna árið á undan. Hagnaðurinn nam rúmum 90 milljónum og stóð óbreyttur milli ára. Eignir félagsins námu 2,8 milljörðum króna og eigið féð rúmlega 200 milljónum.

Þá var MótX á meðal þeirra verktakafyrirtækja sem stefndu Reykjavíkurborg vegna meintra ólögmætra innviðagjalda sem borgin hefur innheimt á undanförnum árum í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði.