Kjálkanes hefur selt í Síldarvinnslunni fyrir um tvo milljarða króna á undanförnum tveimur dögum. Í dag seldi félagið fyrir 1,5 milljarða króna og í gær fyrir um 448 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 64 krónur á hlut, að því er fram kemur í tilkynningum til Kauphallarinnar. Þegar þetta er skrifað er gengið 63,1.

Í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar í Kauphöll í maí seldi Kjálkanes fyrir 15,3 milljarða króna í útgerðinni.

Kjálkanes hefur því selt fyrir rúmlega 17 milljarða króna í Síldarvinnslunni á skömmum tíma.

Kjálkanes á enn stóran hlut í Síldarvinnslunni og markaðsvirði bréfanna er 18,7 milljarðar króna.

Fram hefur komið í Markaðnum að Kjálkanes keypti nýverið 0,3 prósenta hlut í Arion banka. Markaðsvirði hlutarins er ríflega 700 milljónir króna.

Hluthafar Kjálkaness eiga meðal annars útgerðina Gjögur á Grenivík. Stærstu hluthafar eignarhaldsfélagsins með 45 prósenta hlut eru systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn.

Annar systkinahópur heldur á samanlagt um 42 prósenta hlut, þau Sigríður, Oddný, Guðjón, Björgólfur og Aðalheiður Jóhannsbörn sem eiga 8,42 prósent hvert. Freyr Njálsson, Þorbjörn Trausti Njálsson og Marínó Njálsson eiga svo 3,74 prósent hver.

Útgerðin Gjögur tapaði tæplega 476 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi Félagið hagnaðist um 175 milljónir árið 2019.

Rekstrartekjur félagsins jukust úr 4,4 milljörðum í 5,5 milljarða, sem að öllum líkindum má rekja til veikingar krónunnar. Félagið er alfarið fjármagnað í evrum, en gengisveikingin varð til þess að bókfærðar skuldir félagsins í krónum hækkuðu úr tæpum 7,2 milljörðum í rúma 7,8 milljarða.

Rekstrarhagnaður félagsins jókst úr 592 milljónum árið í 735 milljónir á síðasta ári. Gengisáhrifin á efnahagsreikninginn vógu hins vegar þyngra og drógu afkomuna niður um einn milljarð króna.

Félagið gerir út þrjú skip – fjölveiðiskipið Hákon og togarana Vörð og Áskel.