Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hafi á hverjum tíma yfir að ráða skilvirku verkfæri í formi varaleiðar fyrir innlenda smágreiðslumiðlun, sem raunhæft er að beita fyrirvaralítið. Rafkróna útgefin af Seðlabanka Íslands gæti verið ein af þessum varaleiðum.

Þetta er mat Seðlabankans sem birti í dag tvö sérrit undir yfirskriftunum Rafkróna? og Smágreiðslumiðlun frá sjónarhóli viðbúnaðar og fjármálastöðugleika

Seðlabankinn lýsir rafkrónu þannig að sinni einföldustu mynd sé munurinn á rafkrónu og hefðbundnu reiðufé sá að rafkróna sé rafrænt skráð inneign eða greiðsluheimild en hefðbundið reiðufé áþreifanlegt í formi seðils og myntar. Rafkróna kæmi ekki algerlega í stað hefðbundins reiðufjár, heldur yrði viðbót. 

Rafkróna gæti haft talsverð áhrif á fjármálastöðugleika, að mati Seðlabankans, en þau væru líklega ekki einhlít. 

„Annars vegar gæti rafkróna stutt við fjármálalegan stöðugleika með nýjum valkosti sem eftir atvikum væri óháður einkarekna bankakerfinu. Tilvist þess kerfis gæti dregið úr kerfislegu mikilvægi banka í greiðslumiðlun og hugsanlega dregið úr freistnivanda,“ segir í fyrrnefnda ritinu. 

„ Hins vegar gæti rafkróna dregið úr stöðugleika innstæðna í bankakerfinu og jafnvel greitt götu nýrrar tegundar bankaáhlaupa“

Rafræn varaleið nauðsynleg

Segir Seðlabankinn að það auki öryggi smágreiðslumiðlunar ef til staðar eru varaleiðir sem hægt er að nota ef eitthvað bjátar á í meginkerfum greiðslumiðlunar. Seðlar og myntir gegni slíku hlutverki í dag en í samræmi við kall tímans þurfi að vera til staðar rafræn varaleið. 

Þá er minnst á greiðslulausn sem Reiknistofa bankanna hefur þróað sem mun gera einstaklingum mögulegt að nýta snjallsíma fyrir greiðslur. 

„Lausnin nýtir sér innlán í bönkum án aðkomu kortakerfa. Hún gæti því fjölgað valkostum án tenginga við alþjóðlega greiðslumiðlun og ætti að geta orðið hagkvæmari og ódýrari fyrir notendur. Jafnframt gæti hún verið rafræn varaleið ef eitthvað bjátar á í kortakerfum. Í framtíðinni gætu aðrar farsímalausnir komið til sem varaleiðir og einnig rafkróna útgefin af Seðlabanka Íslands,“ segir í síðarnefnda ritinu.

Hér má finna sérrit Seðlabanka Íslands:
Rafkróna? Áfangaskýrsla
Smágreiðslumiðlun frá sjónarhóli viðbúnaðar og fjármálastöðugleika