Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn í dag til þess að sporna gegn gengisveikingu íslensku krónunnar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Kaup bankans á krónum stöðvuðu veikingu krónunnar sem gekk að mestu leyti til baka.

Gengi krónunnar hafði veikst um meira en tvö prósent gagnvart evrunni í dag þegar Seðlabankinn greip inn í markaðinn um tvöleytið.

Gengi krónunnar hefur veikst umtalsvert á síðustu dögum og vikum. Þannig hefur gengisvísitalan hækkað um sex prósent á undanförnum tveimur vikum en hækkun vísitölunnar táknar lækkun á virði krónunnar. Í byrjun síðustu viku kostaði ein evra 125,9 krónur en nú kostar hún um 131,8 krónur.

Mánuðina á undan var gengi krónunnar hins vegar nokkuð stöðugt og hefur Seðlabankinn af þeim sökum látið lítið sem ekkert að sér kveða á gjaldeyrismarkaði. Var tekið fram í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans að gjaldeyrismarkaðinn hafi verið í „ágætu jafnvægi“.

Samkvæmt stefnu bankans leitast hann við að draga úr „óæskilega miklum“ sveiflum á gjaldeyrismarkaði.