Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn um þrjúleytið dag til þess að sporna gegn gengisveikingu krónunnar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Kaup bankans á krónum stöðvuðu veikinguna og leiddu til þess að hún gekk að miklu leyti til baka.

Seldi bankinn samtals 9 milljónir evra eða sem jafngildir um 1,2 milljörðum króna, eftir því sem heimildir Fréttablaðsins herma.

Gengi Bandaríkjadalsins hafði styrkst um meira en tvö prósent gagnvart krónunni í viðskiptum dagsins þegar Seðlabankinn greip inn í markaðinn. Stóð gengið nánar tiltekið í 120,4 krónum en í kjölfar inngripsins fór gengið niður í 118,6 krónur. Til samanburðar kostaði Bandaríkjadalurinn 118,1 krónu í byrjun dagsins.

Þetta er í annað sinn í haust sem Seðlabankinn grípur inn í gjaldeyrismarkaðinn með kaupum á krónum. Síðast greip hann inn í markaðinn 11. september þegar hann seldi gjaldeyri fyrir um 1,2 milljarða króna.

Samkvæmt stefnu Seðlabankans leitast hann við að draga úr „óæskilega miklum“ sveiflum á gjaldeyrismarkaði.