Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn um tvöleytið í dag með því að selja samanlagt níu milljónir evra, jafnvirði um 1,2 milljarða króna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Gengi krónunnar hafði veikst um 0,6 prósent gagnvart evrunni í viðskiptum dagsins þegar Seðlabankinn greip inn í markaðinn en kaup bankans á krónum stöðvuðu veikinguna og leiddu til þess að hún gekk að hluta til baka.

Dagsveiking krónunnar nam um 0,3 prósentum gagnvart evrunni og stóð gengi evrunnar í 134,2 krónum síðdegis í dag. Til samanburðar var gengið 133,8 krónur í byrjun dags.

Gengi krónunnar veiktist lítillega gagnvart helstu viðskiptamyntum í viðskiptum dagsins á gjaldeyrismarkaði en sem dæmi nam veikingin um 0,3 prósentum gagnvart Bandaríkjadal og 0,7 prósentum gagnvart breska pundinu.

Samkvæmt stefnu Seðlabankans leitast hann við að draga úr „óæskilega miklum“ sveiflum á gjaldeyrismarkaði.

Þá hefur bankinn sagst vera vel í stakk búinn til þess að bregðast við skammtímabreytingum á gjaldeyrismarkaði - en hreinn forði bankans nemur um 700 milljörðum króna - ef stór hluti aflandskrónueigenda kýs að skipta eignunum yfir í erlendan gjaldeyri. Eins og kunnugt er samþykkti ríkisstjórnin í síðasta mánuði að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp sem mun heimila eigendum slíkra krónueigna að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi.