Nýlega birtist á vef yfirskattanefndar, úrskurður nr. 215/2021 sem varðar skattlagningu á verðmæti sem urðu til hjá aðila sem stundaði viðskipti með bitcoin árin 2016 og 2017, eftir að hafa grafið eftir rafmyntinni árin 2009 og 2010 í tómstundaskyni, að eigin sögn. Í úrskurðinum leiðir nefndin að því líkur að gröftur eftir rafmyntinni fari í skattalegum skilningi ávallt fram með þeim efnahagslega tilgangi að skila hagnaði og fari þar af leiðandi ekki fram í tómstundaskyni.

Greinarhöfundur hefur bent á þá staðreynd að ekki sé að finna ákvæði í íslenskum skattalögum sem sérstaklega varða rafmyntir og viðskipti með þær og þeim tengdum.

Óskýr afstaða skattyfirvalda

Í úrskurðinum er gerð tilvísun í svar fjármálaráðherra við fyrirspurn um skattlagningu rafmynta á 151. löggjafarþingi Alþingis (2020-2021). Í svari fjármálaráðherra kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi framkvæmdin verið þannig að tekjur einstaklings af viðskiptum með rafmyntir eins og bitcoin væru eignatekjur sem skattleggja ætti sem fjármagnstekjur, enda væri ekki um atvinnurekstrartekjur að ræða. Að mati ríkisskattstjóra væri því nærtækast að líta á tekjur þessar sem hagnað af sölu lausafjár.

Víkur þá að skyldu til að tilkynna starfsemi sína til virðisaukaskattsskrár ríkisskattstjóra. Skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til afhendingar gegn endurgjaldi á öllum vörum og verðmætum sem og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin samkvæmt lögunum. Þeim sem teljast skattskyldir samkvæmt framansögðu, ber skylda til að tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína teljist hún fara fram í atvinnuskyni.

Að mati yfirskattanefndar telst aðili sem stundar rafmyntagröft, að öllum líkum framkvæma hann í þeim tilgangi að hagnast. Uppfylli starfsemi hans skilyrði um umfang sem fjallað var um í fyrri hluta þessarar greinar, bendir margt til þess að starfsemi hans sé stunduð í atvinnuskyni. Vaknar því spurningin um hvort þeim sem stundar rafmyntagröft í eigin þágu beri skylda til að tilkynna starfsemi sína til skráningar á virðisaukaskattsskrá? Í framangreindu svari fjármálaráðherra á 151. löggjafarþingi birtist það álit ríkisskattstjóra að rafmyntir eða sýndarfé sé ekki skattskylt verðmæti sem fellur undir gildissvið laga um virðisaukaskatt. Rökstuðningur embættisins fyrir þessu áliti sínu í minnisblaði til ráðherra er því miður enginn.

Hér er því réttast að staldra við og afmarka álitaefnin sem eru til staðar. Annars vegar telja ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd nærtækast að líta á tekjur af sölu rafmyntarinnar bitcoin sem tekjur af sölu lausafjár. Hins vegar telur ríkisskattstjóri að starfsemi þeirra sem grafa eftir og stunda viðskipti með rafmyntir falli utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts þar sem rafmyntir séu ekki verðmæti í skilningi virðisaukaskattslaga. Hér virðist túlkun skattyfirvalda á ákvæðum laga um tekjuskatt og ákvæðum laga um virðisaukaskatt ekki vera í takt.

Enginn vafi leikur á að atvinnustarfsemi sem felur í sér sölu lausafjár gegn endurgjaldi er virðisaukaskattsskyld. Hulin ráðgáta er hvers vegna ríkisskattstjóri telur rafmynt vera lausafé gagnvart tekjuskatti en ekki gagnvart virðisaukaskatti. Lagarökin fyrir þessari afstöðu ríkisskattstjóra liggja a.m.k. ekki í augum uppi.

Afstaða erlendra skattyfirvalda

Afstaða skattyfirvalda í Noregi er sú að söluhagnaður af viðskiptum með rafmyntir teljist til skattskylds söluhagnaðar líkt og um verðbréf sé að ræða. Afstaða þeirra gagnvart tekjum af greftri rafmynta er að um tekjur af fjármálastarfsemi sé að ræða sem er sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt norskri virðisaukaskattslöggjöf. Virðast þau horfa til skattframkvæmdar innan Evrópusambandsins í þessu sambandi.

Gripið í tómt?

Mætti velta vöngum yfir því hvort lagalegt tómarúm um skattlagningu á rafmyntir hérlendis séu orsök óburðugs rökstuðnings íslenskra skattyfirvalda um hvernig skattleggja eigi viðskipti með rafmyntir og atvinnustarfsemi þeirra sem stunda rafmyntagröft? Það er vart við skattyfirvöld að sakast í þessu sambandi, því þau hafa ekki viðhlítandi löggjöf til að byggja á. Ekki er seinna vænna en að bæta úr því.

Höfundur er lögmaður hjá KPMG Law.