Fyrsti mánuður markaðsherferðarinnar Ísland – saman í sókn, hefur farið vel af stað ef marka má mælingar greiningarfyrirtækjanna Swayable og Yougov ásamt greiningum Íslandsstofu.

Seinni bylgja COVID-19 faraldursins á Íslandi og erlendis hefur þó sett strik í reikninginn varðandi ímynd Íslands sem áfangastaðar en Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu sem stýrir markaðsherferðinni, bendir á að átakið sé hugsað til lengri tíma.

„Þetta er ímyndarherferð, ekki söluherferð. Ég horfi smá á þetta eins og kosningar. Þú byrjar ekki að auglýsa á kosningadeginum. Þú þarft að byggja upp vitund, áhuga, vinna í viðhorfi, þannig að þegar kemur að kosningadegi eru einhverjir aðilar tilbúnir að kjósa þig. Ef þú bíður of lengi verða aðrir frambjóðendur fyrir valinu,“ segir Daði. „Þetta er ekki auðvelt. Maður þarf að taka allt með í reikninginn.“

Markaðsherferðin Looks like you need Iceland jók áhuga á ferðum til Íslands um 17 prósent í Þýskalandi í síðasta mánuði. Um fjórar milljónir Þjóðverja horfðu á myndbandið og 400 þúsund Danir. Öskurherferðin, eða Let it out, hefur fengið yfir 800 umfjallanir í erlendum miðlum síðan henni var ýtt úr vör 15. júlí. Grófir útreikningar Íslandsstofu benda á að auglýsingavirði þeirra umfjallana sé metið á 2,3 milljarða.

Henda.jpg

Rúmlega 20 milljónir notenda hafa orðið varir við kynningarefni markaðsátaksins á samfélagsmiðlum. Yfir ellefu þúsund stöðufærslur vísa beint í herferðina. Alls hafa um 600 þúsund notendur heimsótt vef verkefnisins og hafa rúmlega 44.000 þeirra gesta skilið eftir sig öskur. Upphaflega markmiðið var að safna 20.000 öskrum yfir sama tímabil.

Daði vonast til að sjá eðlilegra ástand um áramótin en segir að verið sé að passa upp á fjármagn verkefnisins núna í haust svo hægt verði að eyða meiru í vor.

„Þetta seinkar ekki framleiðslu en þetta seinkar kannski birtingu. Það er ýmislegt sem við tökum með í reikninginn. Aðstæðurnar annars staðar, aðstæðurnar á Íslandi. Efnahagshrunið í Bretlandi og svona er líka eitthvað sem við þurfum að meta,“ segir Daði.

Ríkissjóður veitir verkefninu 1.500 milljónir króna á fjáraukalögum ársins 2020. Alls nemur fjárfesting í öllum aðgerðum verkefnisins til þessa um 300 milljónum króna, eða um 20 prósentum af því sem til ráðstöfunar er til apríl 2021.

Íslandsstofa horfir á verkefnið í þremur fösum. Fyrsti fasinn er markaður sem skiptir Ísland máli en er alveg lokaður og getur ekki ferðast. Annar fasinn eru lönd sem eru að opna landamæri sín og sá þriðji eru lönd þar sem ástand er eðlilegt. Engin lönd eru í þriðja fasanum eins og er.

Tvær herferðir hafa litið dagsins ljós sem byggja á mismunandi hugmyndafræði. Looks like you need Iceland-herferðinni er beint að löndum sem eru að opna landamæri sín, þar á meðal Þýskalandi og Danmörku. Fólki sem getur farið að huga að því að ferðast til Íslands. „Það myndi ekki ganga í Bandaríkjunum,“ segir Daði.

Öskurherferðin er unnin fyrir Bandaríkin, Bretland og Kanada. „Þar erum við meira að setja okkur í þeirra spor. Það er útgöngubann, þetta er erfitt tímabil, það er mikill pirringur en við vitum um stað sem er frábær staður til að losa um streitu,“ segir Daði. Finna þurfti skemmtilegan vinkil á þetta þunga efni.

„Þar kemur þessi sálræna meðferð um að losa öskrið frá sér og þar kemur tengingin við Ísland sem er með svo mikla víðáttu,“ segir Daði en sú herferð er gerð til að segja við fólk: „Við skiljum ykkur og getum verið lausn í framtíðinni.“