Evrópsk flug­mála­yfir­völd (EASA) segjast enn vera að skoða þær breytingar sem flug­véla­fram­leiðandinn Boeing hefur gert á hug­búnaði kyrr­settra 737 MAX 8 véla en ekkert hafi komið fram enn sem komið er sem kalli á frestun endur­komu vélanna í loftið, að því er fram kemur á vef Reu­ters.

Greint var frá því í gær á vef Frétta­blaðsins að evrópsk flug­mála­yfir­völd væru ó­sam­mála þeim banda­rísku hvað varðar upp­færslur á hug­búnaði vélanna. Ekki hefði verið sýnt fram á með nægjan­legum hætti að þær væru öruggar en flug­véla­fram­leiðandinn hefur áður sagst vonast til þess að sjá endur­komu vélanna í byrjun fjórða árs­fjórðungs.

Í svari við fyrir­spurn Reu­ters vegna málsins segir tals­kona EASA hins vegar að enn sé verið að skoða upp­færslurnar. „EASA er enn að skoða nýjustu upp­færslurnar á hug­búnaði vélanna, vinnan er enn í gangi og ó­lokið,“ segir meðal annars í svörunum.

„Við höfum á þessu stigi engar sér­stakar á­hyggjur vegna þessa mats sem myndi valda því að við gætum ekki sam­þykkt endur­komu vélanna. Við erum í stöðugu sam­bandi við bæði FAA og Boeing,“ er enn fremur haft eftir tals­konunni.

Hún vildi ekki tjá sig beint um frétta­flutning af meintu ó­sam­ræmi í mati EASA og FAA heldur lagði á það á­herslu að evrópsk flug­mála­yfir­völd væru enn að skoða upp­færslurnar.

Flug­­vélar af þessari gerð hafa verið kyrr­­settar frá því í mars á þessu ári eftir tvö mann­­skæð flug­­slys í Indónesíu og í Eþíópíu sem áttu sér stað með stuttu milli­­bili. Slysin tvö hafa verið rakin til skynjara­­­kerfis vélarinnar sem ýtti nefi vélanna niður í ó­­­þökk ­flug­manna. Boeing hefur þurft að ráða hundruð tíma­bundinna starfs­manna á meðan búnaður vélanna er yfir­­­­­færður og hug­búnaður upp­­­­­færður.