Sam­tök iðnaðarins (SI) gagn­rýna sölu­kerfi upp­runa­á­byrgða meðal ís­lenskra raf­orku­fram­leið­enda og segja söluna skerða í­mynd Ís­lands sem lands endur­nýjan­legra orku­gjafa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningar­skýrslu SI um upp­runa­á­byrgðir.

Í skýrslunni kemur fram að undan­farin ár hafi ís­lenskir raf­orku­fram­leið­endur selt svo­kallaðar upp­runa­á­byrgðir raf­orku (e. Guaran­tee of Origin). Á­byrgðirnar fela í sér stað­festingu til þess bærra aðila að raf­orka hafi verið fram­leidd með endur­nýjan­legum orku­gjöfum.

Segir í skýrslunni að kerfinu hafi verið komið á til að örva orku­skipti í raf­orku­fram­leiðslu innan ESB sem skref í að­gerðum gegn loft­lags­breytingum og til að draga úr notkun á jarð­efna­elds­neyti. Mark­mið kerfisins sé að hvetja raf­orku­fyrir­tæki, sem hafa tekjur af sölu á þessum upp­runa­á­byrgðum, til að stuðla að upp­byggingu nýrra virkjana sem nýta endur­nýjan­lega orku­gjafa.

Álit SI að kerfið eigi ekki við hér á landi

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Sam­tökin telja að sala upp­runa­á­byrgða hafi á­hrif á markaðs­setningu er­lendis og skerði í­mynd Ís­lands og í­mynd ís­lensks at­vinnu­lífs.

Ís­lensk stjórn­völd hafi um ára­tuga skeið markaðs­sett Ís­land sem land hreinna orku­gjafa en sala upp­runa­á­byrgða hafi það í för með sér að raf­orku­bók­hald Ís­lands breytist þannig að hér mætti ætla að upp­runu raf­orku sé 55 prósent jarð­efna­elds­neyti, 34 prósent kjarn­orka og einungis 11 prósent endur­nýjan­leg orka.

SI telur kerfið ekki eiga við hér á landi þar sem megin­til­gangur þess á megin­landi Evrópu sé að stuðla að orku­skiptum í raf­orku­fram­leiðslu. Staða Ís­lands í orku­málum sé gjör­ó­lík flestm ríkjum sem séu aðilar að EES-samningnum og hlut­fall endur­nýjan­legra orku­gjafa hér mun hærra en annars­staðar. Í ljósi þeirra að­stæðna megi ætla að reglu­verk upp­runa­á­byrgða hafi tak­markað gildi á Ís­landi.

Veiti villandi upp­lýsingar um raf­orku­fram­leiðslu

Í skýrslunni segir enn fremur að sala á upp­runa­á­byrgðum sé einungis sala á skír­teinum sem endur­spegla ís­lenska fram­leiðslu og orku­gjafa. Með sölu á þeim út fyrir land­steinana, megi því segja að rangar, í besta falli villandi, upp­lýsingar séu veittar af orku­fram­leið­endum um hér­lenda raf­orku­fram­leiðslu.

Þá er full­yrt í skýrslunni að ís­lenskum fyrir­tækjum sé mis­munað í kerfi upp­runa­á­byrgða. Upp­runa­á­byrgðir fylgi raf­orku til al­mennings og fyrir­tækja á al­mennum markaði, en orku­fyrir­tækin undan­skilji orku­sækin fyrir­tæki á borð við ál­ver, kísil­ver og gagna­ver. Þau fái ekki upp­runa­á­byrgð nema greiða fyrir þær og segir í skýrslu SI að það sé gagn­rýni­vert og sæti furðu að orku­fyrir­tæki í opin­berri eigu mis­muni ís­lenskum fyrir­tækjum með þeim hætti.

Tekið er fram í skýrslunni að orku­fyrir­tækjum sé ekki skylt að selja á­byrgðir. Þó sé ljóst að með þátt­töku sinni á þeim markaði hafi fyrir­tækin undir­gengist á­kveðnar kvaðir vegna þess kerfis. Segir í skýrslunni að með þátt­töku í kerfinu hafi orku­fyrir­tækin skapað laga­lega ó­vissu um þá stað­reynd að Ís­land sé ein­angrað orku­kerfi, sem knúið sé á­fram af endur­nýjan­legum orku­gjöfum.

Skoða hvort leitast þurfi eftir undan­þágu

Segir SI að mikil­vægt sé að skoða þá kosti sem eru í stöðunni til að vinda ofan af þátt­töku Ís­lands í kerfinu. Skoða þurfi meðal annars hvort unnt sé að fá raf­orku­fyrir­tæki til að láta af þeirri stefnu að selja á­byrgðirnar, sum sé með opin­berri eig­enda­stefnu.

Þá segir í skýrslunni að skoða þurfi breytingar á lögum og eru nefnd dæmi um að í bæði Austur­ríki og á Spáni sé að finna laga­legar hindranir fyrir því að selja slíkar á­byrgðir. Auk þess vill SI skoða hvort á­stæða sé til að leitast eftir undan­þágu frá kerfinu þegar fjórði orku­pakki ESB kemur til um­fjöllunar á vett­vangi EFTA-EES sam­starfsins.

Líta megi til sér­stöðu Ís­lands í orku­málum, hvað varðar endur­nýjan­lega orku­gjafa og ein­angrun kerfisins, sem hafi verið grund­völur fyrir ýmsum undan­þágum í gegnum tíðina. Verði engar upp­runa­á­byrgðir seldar frá Í­slandi verði ekki breyting á endan­legri sam­setningu orku­gjafa á ís­lenskum raf­orku­markaði, heldur mun ís­lenska eiginda­blandan, sam­setning raf­orku, byggja að öllu leyti á raun­fram­leiðslu, sem eru endur­nýjan­legir orku­gjafar.