Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands segja að Samkeppniseftirlitið vegi að upplýstri umræðu með tilkynningu sem þau sendu frá sér fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimsíðu Samtaka atvinnulífsins.

Þar segir að meginhlutverk hagsmunasamtaka fyrirtækja sé að standa vörð um hagsmuni atvinnulífs. Þá velta samtökin fyrir sér hvort skilja megi tilkynninguna svo að hagsmunasamtök megi ekki lengur tjá sig um mikilvæg málefni.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir í samtali við Markaðinn að Viðskiptaráð sé mjög undrandi yfir þessari tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

„Við erum einfaldlega mjög undrandi á þessari tilkynningu Samkeppniseftirlitsins og eigum erfitt með að átta okkur á úr hvaða jarðvegi þetta er sprottið. Það fer enginn í grafgötur um hvað er að gerast í aðfangakeðju heimsins.

Framleiðsla dróst saman í heimsfaraldrinum og eftir stendur mikil uppsöfnuð eftirspurn og hækkanir á hrávöruverði og ofan á það kemur hækkun flutningskostnaðar. Þetta er staðreynd en ekki skoðun eins eða neins.

Aðildarfélagar okkar hafa upplýst okkur um að þetta ástand sé að leiða til hækkana hjá birgjum þeirra, hækkana sem eru meiri en þeir hafi áður séð dæmi um.

Að taka þátt í opinberri umræðu um áhrif hækkana í aðfangakeðju felur ekki á nokkurn hátt í sér hvatningu til verðsamráðs eða nokkurs konar brota á samkeppnislöggjöf og við hreinlega skiljum ekki hvað Samkeppniseftirlitinu gengur til með þessari tilkynningu.“

Í tilkynningu Samtakanna segir meðal annars:

„Meginhlutverk hagsmunsamtaka fyrirtækja er að standa vörð um hagsmuni íslensks atvinnulífs. Slík samtök gæta þess í hvívetna að fylgja lögum og reglum. Í umræðu út á við er eðlilegt að þau ræði ýmis mál er tengjast félagsmönnum sínum og íslensku atvinnulífi í heild. Þar má til dæmis nefna umræðu sem snýr að launakjörum, kvöðum stjórnvalda á borð við gjöld og leyfisveitingar, hrávöruverði og fleiri atriðum sem öll geta haft áhrif á almennt verðlag. Að benda á þá staðreynd að þróun varðandi fyrrgreind atriði geti leitt til verðhækkana felur hvorki í sér brot á samkeppnislögum né hvetur það til þeirra. Í raun er óumflýjanlegt að hagsmunasamtök fyrirtækja láti sig verðlag í landinu varða þegar ýmsar kvaðir sem stjórnvöld setja hafa áhrif á verðlag á þeim vörum og þjónustu sem félagsmenn þeirra bjóða upp á. Samtök atvinnulífsins standa til að mynda fyrir ársfjórðungslegri könnun, í samstarfi við Seðlabanka Íslands, meðal stærstu fyrirtækja landsins um stöðu og horfur í efnahagslífinu. Þar er meðal annars fjallað um verðlag og áhrifaþætti þess og eru niðurstöðurnar nýttar við vinnslu Peningamála Seðlabankans. Á að skilja tilkynningu Samkeppniseftirlitsins sem svo að hagsmunasamtök fyrirtækja megi ekki lengur tjá sig um efni þessarar mikilvægu könnunar?"

Á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins segir jafnframt að um sé að ræða lýsingar á opinberum hagtölum en ekki hvatningu til verðhækkana.

„Í þeim tilfellum sem Samkeppniseftirlitið vísar til er um að ræða lýsingar á opinberum hagtölum en ekki hvatningu til verðhækkana. Að hrávöruverð og erlend verðbólguþróun almennt hafi áhrif á neysluverð í einstaka löndum er vel þekkt staðreynd í þjóðhagfræði. Það er einnig þekkt að slíkar verðbreytingar komi fram með tímatöf. Í þjóðhagslíkani Seðlabankans er það t.d. metið út frá sögulegum gögnum að áhrif breytinga á viðskiptakjörum á innlent verðlag, t.d. vegna breytinga á innflutningsverðlagi, nái hámarki rúmu ári síðar. Meðal annars vegna þessa hafa Seðlabankinn og fleiri spáaðilar ítrekað hækkað verðbólguspár sínar undanfarið. Þar eru áhrif hækkandi olíuverðs hvað greinilegust. Áhrif erlendrar verðþróunar á neysluverð eru ennfremur til staðar skv. tiltölulega nýlegum erlendum rannsóknum. Að mati SA og VÍ gengur Samkeppniseftirlitið gegn upplýstri umræðu í landinu ef banna á aðilum að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir og það sem rannsóknir hafa sýnt fram á áratugum saman."

Jafnframt kemur fram að engin ákvæði samkeppnislaga banni samtökum fyrirtækja þátttöku í opinberri umræðu.

„ Engin ákvæði samkeppnislaga banna samtökum fyrirtækja þátttöku í opinberri umræðu. Það er mat SA og VÍ að með aðfinnslum sínum sé Samkeppniseftirlitið komið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Hversu langt má ganga? Hverjir mega tjá sig? Verða settar skorður á Seðlabankann að tjá sig um verðlag í landinu? Eða greiningaraðila, t.d. innan viðskiptabankanna? Mega hagsmunasamtök fyrirtækja tjá sig um vaxtahækkanir? "