Landsvirkjun og Norðurál hafa aflétt trúnaði um orkusölusamninga sín á milli. Um er að ræða tvo orkusölusamninga, einn frá árinu 1997 og annan frá 2009. Sá fyrrnefndi er tengdur norræna orkumarkaðnum Nord Pool, en sá síðarnefndi er tengdur álverði.

Í tilkynningu vegna kemur fram að orkuverð samkvæmt samningum reiknast með þeim hætti að 16 prósent af álverði á London Metal Exchange (LME) er deilt í töluna 14,2 til að fá út verðið í dollurum á megavattstund. En hið almenna viðmið er að 14,2 megavattstundir þurfi til að framleiða eitt tonn af áli.

Tökum dæmi: Ef álverð á LME-markaðnum er 2000 dollarar eru 16 prósent þeirri upphæð þá 320 dollarar. Til að fá út orkuverðið er 320 þá deilt í 14,2, sem myndi þá skila orkuverði upp á ríflega 22,50 dollara á megavattstund auk flutningskostnaðar.

Samningur Norðuráls og Landsvirkjunar frá 2009 felur í sér lægra verð en í lesa má úr samningum milli Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls frá árinu 2008. Álverðsstuðullinn þar er 18 prósent í stað þeirra 16 prósenta sem eru í samningnum í Landsvirkjun frá 2009.

Hins vegar greiðir Orkuveitan flutningskostnað raforkunnar að fullu í samningnum frá 2008, en Norðurál greiðir flutningskostnað í samningnum frá 2009. Flutningskostnaður sem Landsnet rukkar notendur raforkukerfisins er um sex dollarar á megavattstund.

Afleiðingin er því sú að það raforkuverð sem Landsvirkjun hefur fengið til sín á síðastliðnum 10 árum vegna samningsins frá 2009 hefur verið um fimmtungi hærra en Orkuveitunnar, þrátt fyrir lægri álverðtengingu.

„Álverðstengingar án verðgólfs í rafmagnsamningum eru arfleifð liðins tíma og ákvörðun um tengingarnar byggði á spám um álverð sem ekki raungerðust. Rafmagnssamningar með slíkar tengingar hafa ekki staðist væntingar Landsvirkjunar og raforkuverð þeirra hefur verið undir kostnaðarverði Landsvirkjunar," segir í tilkynningu frá Landsvirkjun vegna birtingar samninganna.

Miklar sveiflur á Nord Pool

Stærsti samningurinn sem var birtur í dag er sá sem hefur verið tengdur norræna Nord Pool – raforkumarkaðnum frá haustinu 2019. Miklar sveiflur hafa verið á Nord Pool – verðinu eins og sjá má á gráu línunni hér fyrir neðan:

Mynd: Norðurál

Nord Pool – markaðurinn sveiflast mjög eftir stöðu uppistöðulóna í Noregi. Á síðari hluta síðasta árs voru uppistöðulón í Noregi sneisafull eftir mikla vætutíð misserin áður. Þessi staða hefur nú snúist við. Mikil eftirspurnaraukning raforku og sú þurrkatíð sem sérfræðingar sjá nú í kortunum, einkum í syðri hluta Noregs, hefur orsakað hraða verðhækkun.

„Raforkuverð í samningunum tveimur við Norðurál hefur ekki verið viðunandi fyrir Landsvirkjun. Sökum óhagstæðrar þróunar á þeim mörkuðum sem samningarnir eru tengdir við hefur raforkuverð reynst lægra en búist var við þegar samningarnir voru undirritaðir. Væntingar Landsvirkjunar eru þær að raforkuverð á Nord Pool hækki aftur eftir óvenjulegar aðstæður árið 2020 og sögulega lágt verð og Landsvirkjun fái sanngjarnt raforkuverð í þeim samningi sem tengdur er verði raforku á Nord Pool. Þróun verðs á Nord Pool á fyrstu mánuðum ársins 2021 hefur verið með þeim hætti að verðin eru komin á svipaðan stað og þau voru á árunum fyrir 2020," segir Landsvirkjun í umfjöllun sinni um samningana.