Rekstur slóvakíska tryggingafélagsins Novis, sem hefur selt líftryggingar til íslenskra viðskiptavina frá árinu 2018, stendur enn traustum fótum og heldur áfram með óbreyttu sniði þrátt fyrir að aukin eftirlitsskylda hvíli á félaginu um þessar mundir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Siegfried Fatzi og Slavomir Habanik, sem báðir eiga sæti í framkvæmdastjórn Novis. 

Fatzi og Habanik segja í tilkynningunni að Novis sé “í þeirri traustu stöðu gagnvart viðskiptavinum sínum að geta greitt þeim allt endurkaupsvirði allra gerðra vátryggingasamninga, jafnvel þótt að allir viðskiptavinir félagsins myndu óska innlausnar á vátryggingum sínum á einum og sama deginum.”

Þar segir jafnframt að fjárfestingastefnu félagsins hafi verið breytt snemma á árinu til að bregðast við niðursveiflu á hlutabréfamörkuðum. Þá hafi félagið snúið sér í auknum mæli að fjárfestingum í innlánum í bönkum víða um Evrópu. “Engu að síður þá nutu viðskiptavinir NOVIS þessara hækkana á fjármálamörkuðum þar sem NOVIS lagði fé til tryggingarsjóða sinna þannig að þeir yrðu alveg jafn settir eins og fjármálamarkaðir þróuðust, miðað við samþykktir tryggingarsjóða félagsins. NOVIS var þetta kleift með því að nota eigin sjóði sína en þeir voru ekki tilgreindir í skýrslugerð til Seðlabanka Slóvakíu (NBS). Það var ástæða þess að NBS vildi kanna til fulls, í kjölfar fyrstu bylgju COVID, hvort NOVIS hefði réttar eignir til að mæta fullu endurkaupsvirði allra samninga félagsins,” segir í tilkynningunni.

„Það er miður að íslensk stjórnvöld ákveði að birta á heimasíðu sinni og tiltaka til fjölmiðla skaðlegar upplýsingar sem fjalla um sölubann á vátryggingarsamninga, sem eru verulega rangar og skaðar viðskiptalega hagsmuni félagsins og býr til ósanna ímynd af því.

Ekki hefur verið haft samband við NOVIS af íslenskum yfirvöldum vegna þessa máls en félagið er að fullu tilbúið til að útskýra og ræða hugsanlegan misskilning í sambandi við ofangreint auk þess að senda hvaða gögn og upplýsingar sem er til íslenskra yfirvalda í skyni aukins gagnsæis.“

Tilkynningu Novis má finna í heild með því að smella hér.