Greinendur Capacent meta gengi hlutabréfa í Skeljungi á 8,2 krónur á hlut í nýlegu verðmati en það er liðlega 15 prósentum hærra en gengi bréfanna eftir lokun markaða í gær. 

Greinendurnir segja hátt olíuverð hafa jákvæð áhrif á afkomu félagsins til skamms tíma en hins vegar neikvæð áhrif til lengri tíma þar sem hærra verð flýti fyrir orkuskiptum.

Verðmat Capacent á olíufélaginu er óbreytt í 8,2 krónum á hlut frá því fyrr í sumar. Gera sérfræðingar ráðgjafafyrirtækisins ráð fyrir því að EBITDA Skeljungs - hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - verði 3.262 milljónir króna á þessu ári en það er í samræmi við afkomuspá stjórnenda félagsins.

Upphafleg rekstraráætlun stjórnendanna gerði ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 2.600 til 2.800 milljónir króna í ár en áætlunin hefur verið endurskoðuð tvívegis og er nú búist við því að rekstrarhagnaðurinn verði á bilinu 3.100 til 3.300 milljónir króna.

Í verðmati Capacent, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er meðal annars bent á að mikil tækifæri felist í nýtingu bensínstöðva sem útibúa fyrir netverslun. Dreifing hafi enda verið helsti „Þrándur í götu“ netverslunarinnar. 

Rifjað er upp að Skeljungur hafi um síðustu áramót sagt upp samningum við 10/11 og tilkynnt um kaup á ríflega þriðjungshlut í Wedo sem rekur meðal annars Heimkaup, Hópkaup og Bland. Ætli félagið að nota dreifikerfi sitt sem útibú fyrir netverslanir auk þess sem bensínstöðvar félagsins verði útibú fyrir Eldum rétt.

Greinendurnir benda á að afkoma hlutdeildarfélaga, en afkoma Wedo fellur þar undir, hafi verið neikvæð um 42 milljónir króna á fyrri hluta ársins og því virðist sem nokkur bið sé eftir hagnaði.

Tækifæri geta falist í orkuskiptunum

Að mati greinenda Capacent ríkir mikil óvissa um framtíðarsölu Skeljungs í Færeyjum (Magn) á olíu til húshitunar sem og þau áform félagsins að sjá um framleiðslu umhverfisvænnar orku og uppsetningu nýrra húshitunarkerfa í landinu.

Rifjað er upp í verðmatinu að færeyska ríkisstjórnin stefni að orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti í endurnýtanlega orkugjafa árið 2030 en nú kemur 84 prósent af allri orku í landinu frá olíu.

„Verður Magn leiðandi í framleiðslu umhverfisvænnar orku í Færeyjum? Hver verður vænt arðsemi verkefnisins? Mun áætlun færeysku ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga?“ spyrja greinendur Capacent.

Ljóst sé að töluverður samdráttur verði í sölu olíu til húsitunar í Færeyjum á næstu árum. Þó sé jafn ljóst að mikil tækifæri geti falist í orkuskiptunum.

Er tekið fram í þessu sambandi að framlegð Magns í Færeyjum komi um 35 prósent frá sölu olíu til húshitunar og um 30 til 35 prósent af rekstrarhagnaði Skeljungs komi frá Færeyjum.

Verðmatsgengi Capacent er eins og áður sagði um 15 prósentum yfir gengi hlutabréfa Skeljungs á markaði en það var hins vegar um 30 til 35 prósentum yfir markaðsgenginu fram til loka ágústmánaðar síðastliðins. Hefur verðmatsgengið hækkaði um 28 prósent frá fyrsta verðmati Capacent í lok árs 2016 en það jafngildir um 14 prósenta ársávöxtun, að því er fram kemur í verðmatinu.