Hörður Arnar­son, for­stjóri Lands­virkjunar, segir það aldrei hafa komið fram í við­ræðum fyrir­tækjanna að Rio Tin­to í­hugi í­hugi að leggja niður starf­semi álversins í Straums­vík í tvö ár líkt og kom fram í frétt Morgun­blaðsins í dag. Fyrir­tækin eiga nú í við­ræðum um endurskoðun raforkusamnings Rio Tinto og Landsvirkjunar.

Heimildar Moggans herma að ein af þeim sviðsmyndum sem forsvarsmenn fyrirtækisins íhugi nú sé að stöðva fram­leiðsluna í tvö ár í von um að á þeim tíma muni alþjóðleg­ir markaðir jafna sig. Samhliða því íhugi Rio Tinto nú mála­ferli gegn Lands­virkjun til að fá samningnum hnekkt. Þá kemur einnig fram að ný­undir­ritaðir kjara­samningar Rio Tin­to við starfs­menn séu háðir því að nýir samningar náist fyrir lok júní.

„Það sætir auð­vitað furðu, ef rétt er, að al­þjóð­lega risa­fyrir­tækið Rio Tin­to hafi skil­yrt kjara­samninga við starfs­menn sína á Ís­landi að­gerðum fyrir­tækis í eigu ís­lensku þjóðarinnar, sem hefur ekkert með þá kjara­samninga að gera,“ segir Hörður í yfir­lýsingu fyrir­tækisins um full­yrðingarnar.

Hörður tekur það fram að staðan sé al­mennt mjög erfið hjá fyrir­tækjum í ljósi CO­VID-19 far­aldursins og bætir við að sjaldan sé talað um 130 milljón dollara arð­greiðslu ál­versins árið 2017. Sú arð­greiðsla hafi verið hærri en skatt­greiðslur og allur arður Lands­virkjunar frá upp­hafi.

„Frum­legasta full­yrðing heimildar­manna Morgun­blaðsins er sú, að ál­verið í Straums­vík ætli í mál þar sem orkan til ál­versins sé ekki frá vatns­afls­virkjunum, eins og um hafi verið samið. Sam­kvæmt raf­orku­reikningum sé orkan í raun frá kola- og kjarn­orku­verum og því um vöru­svik að ræða gagn­vart Rio Tin­to,“ segir Hörður. Hann sakar heimildar­mennina um að ýta undir al­gengan mis­skilning um eðli upp­runa­vott­orða sem Lands­virkjun selur til að skapa tekjur af auð­lind sinni.

„Það er rétt að í­treka, að Lands­virkjun fór um miðjan febrúar fram á að trúnaði yrði af­létt af samningnum við Rio Tin­to, svo hægt væri að tryggja gagn­sæi í um­ræðum um hann. Rio Tin­to hefur ekki enn orðið við því,“ segir Hörður að lokum.