Ný bylgja kórónaveirufaraldursins hefur ekki haft veruleg áhrif á ferðamannastrauminn til Íslands en það gæti breyst eftir helgi þegar Ísland kemst á rauðan lista.
Framkvæmdastjóri hótelkeðjunnar Íslandshótela sem rekur 17 hótel segir aðeins hafa hægst á bókunum fram í tímann en það sé enn sem komið er lítið um afbókanir.
Þar sem smitum hefur fjölgað talsvert á undanförnum dögum verður Ísland rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu, ECDC, óháð því hversu mörg smit greinast á næstu dögum.
„Í stóru myndinni höfum við ekki fundið fyrir miklum áhrifum. Það er ein bókun í tengslum við kvikmyndaverkefni úti á landi sem er í skoðun. Fólk er að hringja, spyrja spurninga og velta þessu fyrir sér, sérstaklega með stærri pantanirnar,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, spurður hvort afbókanir séu farnar að hrannast inn á borð Íslandshótela.
„Það hefur kannski aðeins hægst á bókunum fram í tímann en það er ekki mikið um afbókanir,“ segir Davíð sem á þó von á því að hlutirnir gætu breyst á næstu dögum þegar Ísland fer á rauðan lista ECDC.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri hefur sömu sögu að segja, ekki sé mikið um afbókanir en að það geti breyst á næstu dögum.
„Það er ekki að greina að nýjustu aðgerðirnar séu að hafa áhrif á ferðamannastrauminn. Í gær kom í ljós að Ísland fer á rauðan lista og það á eftir að koma í ljós hvaða áhrif það hefur,“ segir Skarphéðinn Berg, aðspurður um áhrif faraldursins á ferðamannastrauminn hingað til lands.