Launahækkanir í 12 prósenta atvinnuleysi eru sá þáttur sem einna helst mun hamla fjölgun starfa á ný og atvinnustigi verður ekki viðhaldið með frekari launahækkunum. Þetta kemur fram í umfjöllun Samtaka atvinnulífsins sem birtist á vefsíðu samtakanna í dag.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 3,4 prósent á síðustu 12 mánuðum og launavísitala Hagstofunnar hækkað um meira en 7 prósent á sama tímabili. „Í heimshagsögunni heyrir líklega til undantekninga að svo miklar launahækkanir mælist á sama tíma og atvinnuleysi eykst svo skarpt,“ segja SA.

„Á sama tíma og 20 þúsund manns eru án vinnu hækka laun þeirra sem halda sínu starfi um ríflega 7 prósent milli ára og kaupmáttur með. Takmörkuð tækifæri eru hins vegar til neyslu vegna sóttvarnaraðgerða. Birtingarmynd þessa má sjá meðal annars í verulegum auknum sparnaði heimila, en hann mælist nú yfir 20 prósent af ráðstöfunartekjum sem er um tvöfalt hærra en fimm ára meðaltal,“ segir í greiningu samtakanna.

Þar er jafnframt bent á að erfitt sé að sjá hvernig forsendur séu fyrir því sem verkalýðshreyfingin hefur kallað „launadrifinn hagvöxt,“ en þar er átt við aukna einkaneyslu í krafti launahækkana í þjóðfélaginu. „Líklegra er að slík stefna myndi skila sér í meiri sparnaði þeirra sem ekki hafa orðið fyrir atvinnumissi vegna veirunnar, auknu atvinnuleysi og meiri ójöfnuði,“ segir í umfjölluninni.

Samtök atvinnulífsins benda einnig á að krafa verkalýðshreyfingarinnar hafi verið að launahækkanir skili sér hvorki út í verðlag né leiði til aukins atvinnuleysis, geti vart staðist. Enda sé erfitt að sjá hvernig sá fjöldi fyrirtækja sem upplifi nú mikinn eða algjöran tekjubrest geti staðið undir launahækkunum um áramótin.

Umfjöllun SA má lesa hér.