Ís­lenska sjávar­út­vegs­fyrir­tækið Sam­herji er bendlað við ó­eðli­legar milli­færslur og við­skipti með kvóta í Namibíu í fréttum sem birtar voru á dögunum í namibískum fjöl­miðlum. Í frétt The Namibian er namibíska við­skipta­konan Sharon Ne­umbo sögð saka fyrir­tækið um ó­lög­lega milli­færslu sem nemur sex­tíu milljónum namibískra dollara, eða því sem nemur rúmum hálfum milljarði íslenskum króna.

Ís­lenska fyrir­tækið sendi frá sér frétta­til­kynningu í gær­kvöldi. Þar kom fram að fé­lagið hefði sent fyrr­verandi rann­sóknar­lög­reglu­mann til Namibíu árið 2016 þegar grunur kom upp um að ekki væri allt með felldu í rekstri fyrir­tækisins þar.

Þar kom fram að eftir nokkurra mánaða vinnu rann­sóknar­lög­reglu­mannsins hefði niður­staðan verið sú að segja upp Jóhannesi Stefáns­syni, fyrr­verandi stjórn­enda Sam­herja í Namibíu, vegna „ó­á­sættan­legrar fram­göngu hans og hegðunar.“

Í frétt namibíska vef­miðilsins kemur fram að Ne­umbo hafi verið hand­tekin á föstu­daginn var, degi eftir að hún bað lög­regluna um að rann­saka ó­lög­lega milli­færslu frá sjávar­út­vegs­fyrir­tæki sem hún á hluta í. Um sé að ræða milli­færslu sex­tíu milljón namibískra dollara og sagt er í fréttinni að hún saki Sam­herja um að hafa milli­fært upp­hæðina með ó­lög­legum hætti.

Á­stæða þess sé að Jóhannes Stefáns­son, sem þá hafi verið for­stjóri fyrir­tækisins, hafi haft milli­göngu um milli­færsluna á­samt Jacqueline Thiar­dt. Tekið er fram í frétt The Namibian að ekki hafi náðst í Jóhannes við vinnslu fréttarinnar.

Sagt er að um­rædd mál teygi sig aftur síðustu sex ár. Fyrir­tæki Ne­umbo hafi auk annarra namibískra sjávar­út­vegs­fyrir­tækja líkt og Sinco Fishing, Epango Fishing og Yu­kor stofnað sam­eigin­lega fyrir­tækið Arcticnam á­samt Sam­herja árið 2013.

Tekið er fram að namibísk yfir­völd hafi málin enn til rann­sóknar. Þau séu talin viða­mikil og flókin og tekið fram að lög­reglan rann­saki ó­eðli­legar til­færslur á veiði­réttindum og fisk­veiði­kvóta sem mögu­lega hafi átt sér stað hjá fyrir­tækinu.