Árni Hauksson, fjárfestir sagði í Föstudagskaffi Viðskiptaráðs í morgun, að hið opinbera þyrfti að ráðast í stefnumótun og skilgreina sína kjarnastarfsemi með sambærilegum hætti og einkafyrirtæki gera.

„Það er ekki kjarnastarfsemi ríkissins að selja áfengi eða dreifa pósti. Því velti ég fyrir mér hvort ríkið þurfi ekki að ráðast í heildstæða stefnumótun með sambærilegum hætti eins og einkafyrirtæki gera oft. Þar sem kjarnastarfsemi ríkisins er skilgreind og síðan er unnið út frá því," sagði Árni.

Í morgun stóð Viðskiptaráðs fyrir fundinum: Föstudagskaffið þar sem farið var yfir nýja greiningu ráðsins sem ber heitið: Er atvinnurekstur hins opinbera náttúrulögmál? Fundurinn byrjaði á því að Elísa Arna Hilmarsdóttir, sérfræðingur í greiningum hjá Viðskiptaráði fór yfir greininguna og að því loknu ræddu þau Árni Hauksson, fjárfestir og Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas um greininguna. Árni og Hrund voru bæði meðlimir í framleiðnihóp Viðskiptaráðs sem kom meðal annars að greiningunni.

Hrund segist hafa miklar áhyggjur af umfangi ríkisins í atvinnurekstri.

„Við höfum séð að fyrirtæki í geirum eins og til dæmis ferðaþjónustu draga saman seglin þegar á þarf að halda en hið opinbera aðlagar sig ekki með sama hætti. Þetta er einfaldlega þróun sem getur ekki gengið til lengdar."

Árni tekur undir með Hrund og segir að það blasi við að ríkið sé í starfsemi sem það ætti alls ekki að vera í og nefnir í því samhengi Íslandspóst, verslunarrekstur Isavia og ÁTVR.

„Síðan má líka benda á að launhækkanir hjá ríkinu hafa farið fram úr öllu hófi."

Hrund bætir við að það hafi sýnt sig og sannað að einkaaðilum sé vel treystandi fyrir heilbrigðisþjónusu.

„Við höfum einfaldlega séð það að einkareknar heilsugæslur hafi komið mun betur út úr þjónustukönnunum heldur en þær sem hið opinbera rekur. Það er einfaldlega hollt og gott fyrir hið opinbera að hafa aðhald. Sem dæmi má nefna að það besta sem gat komið fyrir Háskóla Íslands var stofnun Háskólans í Reykjavík."

Árni bætir við að samfélagið hafi þróast með þeim hætti að engin þörf sé á því lengur að ríkið standi í því að reka póstþjónustu.

„Hér áður fyrr var Pósturinn þarft fyrirtæki en síðan þróaðist samfélagið og í dag sendir nánast enginn póst. Þegar ekki er þörf fyrir þessa starfsemi lengur þarf hún einfaldlega að hverfa," segir hann og bætir við að það sama sé uppi á tengingnum varðandi einokun ríkisins á sölu á áfengi.

„Ríkið gæti náð svipuðum tekjum með miklu minni tilkostnaði með því að sala á áfengi yrði gefin frjáls. Mér þykir það líka skjóta skökku við þar sem það á að vera markmið ríkisins að takmarka aðgengi að áfengi þá rekur ríkið 50 verslanir sem eru líka opnar á laugardögum. Það er einfaldlega meinloka að það verði að vera ríkið sem selur áfengi. Þetta er sama meinloka og var uppi á sínum tíma um hvort leyfa ætti bjórinn."